Hún segir frá því að hafa setið úti á verönd að njóta sólarinnar fyrr í dag og fylgst með karlkyns svartþresti sækja mat fyrir nýfædda unga sína. „Næsta sem ég veit eru fjaðrir og blóð út um allt,“ segir María. Þá var fuglinn lentur í gini kattar sem hafði tekið sér veiðitúr.
María segist hafa þurft að hafa hraðar hendur og bola kettinum í burtu áður en hann næði kvenfuglinum líka.
Að sögn Maríu fjölgaði heimilisköttum töluvert í Vesturbænum í heimsfaraldrinum og því sé ástandið nú verra en áður.

„Margir segja að það er ekki hægt að berjast móti kattareðlinu og að kettirnir geta ekkert að þessu gert,“ segir María en ítrekar að eigendur þurfi þrátt fyrir það að sýna ábyrgð, rétt eins og hundaeigendur passi að hundarnir séu ekki að bíta önnur dýr.
María bendir á að margt sé hægt að gera til þess að sporna gegn óþarfa fugladrápum katta. Kragar og bjöllur geti til dæmis skipt sköpum. Jafnvel mætti halda heimiliskettinum innandyra ef erfitt reynist að halda honum frá nýbökuðum fuglaforeldrum.