Þar á meðal er þingsályktunartillaga um að fordæma nýjar vopnareglur sem ríkisstjórn Joe Biden, forseta, hefur komið á. Washington Post segir McCarthy hafi einnig orðið við kröfum þessa hóps um umfangsmeiri niðurskurð. Hópurinn vill einnig fá meiri aðkomu að öllum viðræðum um frumvörp og að McCarthy fái ekki hjálp Demókrata við að koma frumvörpum í gegnum þingið.
Þá sagðist McCarthy ætla að funda frekar með þingmönnunum sem hafa staðið í þessari uppreisn á næstu vikum.
Hópurinn, sem kallast House Freedom Caucus, inniheldur umdeilda og mjög svo hægri sinnaða þingmenn eins og Marjorie Taylor Greene og Matt Gaetz. Þingmennirnir eru reiðir út í McCarthy fyrir að hafa gert samkomulag við Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, um að hækka skuldaþakið svokallaða.
Þeir héldu þinginu í gíslingu í síðustu viku með því að koma í veg fyrir að hægt væri að greiða atkvæði. Meirihluti Repúblikanaflokksins í fulltrúadeildinni eru mjög naumur en þar sitja 222 Repúblikanar gegn 212 Demókrötum en eitt sæti er laust.
AP fréttaveitan segir að þó McCarthy hafi tilkynnt að atkvæðagreiðslur færu fram í þessari viku, hafi hann viðurkennt að standa frammi fyrir sambærilegri uppreisn aftur á næstunni.
„Kannski verðum við aftur á sama stað í næstu viku,“ sagði Matt Gaetz, er hann gekk af fundinum með McCarthy í gær. Matt Rosendale, sem einnig tilheyrir uppreisnarhópnum, sagði að hópurinn þurfi að sjá árangur í niðurskurðarmálum, annars verði þinghald stöðvað á nýjan leik.
Repúblikanar eru að byrja að semja fjárlagafrumvarp en McCarthy hefur samkvæmt frétt Washington Post, gefið í skyn að hann sé tilbúinn til að ganga lengra í niðurskurði en samkomulag hans við Biden segir til um. Það gæti leitt til þess að rekstur alríkisins í Bandaríkjunum yrði stöðvaður.
Fjárlagafrumvarp þyrfti einnig að verða samþykkt í öldungadeildinni og Repúblikanar þar hafa sagt að þeir séu mótfallnir niðurskurði í varnarmálum. Demókratar þar, sem eru í meirihluta, hafa einnig sagt að niðurskurður í velferðarmálum komi ekki til greina.