Erlent

Úkraínu­menn og Svíar sitja enn á hliðar­línu At­lants­hafs­banda­lagsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Nató, og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, funduðu í Washington í gær.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Nató, og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, funduðu í Washington í gær. AP/Carolyn Kaster

Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins munu ekki leggja fram tímasetta áætlun um inngöngu Úkraínu á næstu ráðstefnu Nató í Vilníus í júlí heldur lofa styttra umsóknarferli þegar Úkraína fær boð um inngöngu, einhvern tímann þegar átökunum í landinu er lokið.

Frá þessu greinir Guardian og bætir við að aðildarríki Nató muni lofa því að standa vörð um öryggi Úkraínu en hvert fyrir sig, það er að segja ekki á sameiginlegum grundvelli Nató.

Það hefur löngum legið ljóst fyrir að Úkraínu yrði ekki boðin aðild að Atlantshafsbandalaginu á meðan átök stæðu enn yfir í landinu. Þarlend stjórnvöld hafa hins vegar talað fyrir því að tímasett áætlun um inngöngu yrði lögð fram og njóta stuðnings Póllands og ríkjanna á Balkanskaga.

Í sárabót verður Úkraínumönnum líklega veitt meiri aðkoma að viðræðum á fundum um málefni Úkraínu og samband Nató og Úkraínu.

New York Times segir Joe Biden Bandaríkjaforseta undir auknum þrýsting frá öðrum aðildarríkjum um einhvers konar skuldbindingu Nató gagnvart Úkraínu en hann er sagður njóta fulls stuðnings Þjóðverja.

Allir aðilar máls virðast sammála um að mikilvægast sé að viðhalda samstöðu Nató-ríkjanna og senda þannig skýr skilaboð til stjórnvalda í Rússlandi um að það muni ekki gagnast þeim að bíða og vona að það fjari undan stuðningi ríkjanna við Úkraínu.

Bæði Finnland og Svíþjóð fengu hraðafgreiðslu aðildarumsókna sinna en á meðan Finnar hafa þegar verið teknir inn bíða Svíar samþykkis stjórnvalda í Tyrklandi. Fulltrúar Nató funda nú með Recep Tayyip Erdogan, sem nýlega var endurkjörinn forseti, um stöðu mála.

Fátt bendir þó til þess að forsetinn hafi haggast í afstöðu sinni en í viðtölum sem birtust í tyrkneskum fjölmiðlum í morgun sagði hann að afstöðu Tyrklands yrði ekki haggað á meðan enn væri boðað til mótmæla í Svíþjóð til stuðnings Kúrdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×