Innlent

Sparkaði í hreðjar manns í miðborginni

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvar í miðborginni líkamsárás, þar sem sparkað var í hreðjar, átti sér stað. Mynd tengist frétt því ekki beint.
Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvar í miðborginni líkamsárás, þar sem sparkað var í hreðjar, átti sér stað. Mynd tengist frétt því ekki beint. Vísir/Vilhelm

Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag vegna líkamsárásar þar sem maður hafði sparkað í hreðjar annars manns.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar fyrir eftirmiðdaginn í dag en ekki segir hvort viðkomandi hafi verið handtekinn eða hvort hann hafi sloppið.

Ökumenn af ýmsu tagi

Þar segir einnig að ökumaður hafi verið handtekinn í Laugardalnum grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna og vegna vörslu fíkniefna. Hann var látinn laus að lokinni blóðsýna- og skýrslutöku. Í sama hverfi var ökumaður sektaður fyrir að aka gegn rauðu umferðarljósi. 

Í Múlunum, hverfi 108, hafði lögreglan afskipti af þriðja ökumanninum, sá var sektaður fyrir að aka um á nagladekkjum en reyndist einnig vera próflaus. Þá var aðstoðar lögreglu óskar vegna einstaklings sem hafði dottið af rafskútu og rotast við. Viðkomandi var fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann til aðhlynningar.

Vinnuslys og umferðarslys

Aðstoðar lögreglu var einnig óskað í Breiðholtinu vegna vinnuslyss þar sem starfsmaður hafði dottið og hlotið áverka á fæti. Í Árbænum var hringt á lögreglu vegna líkamsárásar en ekki kemur fram hvernig það mál endaði.

Ekki var mikið um að vera í Hafnarfirðinum fyrir utan eitt umferðarslys þar sem ekið var á starfsmann bensínstöðvar sem hlaut minniháttar áverka. 

Í Kórahverfinu í Kópavoginum var ökumaður grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna en hann hafði orðið valdur að umferðarslysi. Hann var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×