Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem ökumenn flutningabíla klikki á því að kynna sér reglur um breiddar-og hæðarmörk í íslensku gatnakerfi.
Flutningabíllinn hafði valdið töluverðri töf á umferð þegar lögregla bar að garði. Þó nokkurn tíma tók bílinn að bakka niður að Lindum í Kópavogi, þar sem hann tók beygu til hægri og fór sína leið upp í Kórahverfi.
„Sem betur fer hringja menn oft í okkur og við reynum að aðstoða og liðka til eins og við getum,“ segir Árni sem minnir á að það sé alvarlegt mál þegar ökumenn kynni sér ekki þessar reglur. Hann hvetur ökumenn flutningabíla til þess að kynna sér þær vel, enda um að ræða lög.
„Auðvitað getur þetta skapað hættu en þó aðallega truflanir á umferð og það eru dæmi þess að menn hafi fengið kæru vegna þessa. Það eru nokkur ár til dæmis síðan að flutningabíll með glergám keyrði á brú á Höfðabakka með tilheyrandi glerbrotum og töfum á umferð.“