Handbolti

Spilað á slóðum Dags

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik Portúgals og Króatíu á HM U-21 árs. Sigurvegarinn mætir strákunum hans Arnórs Atlasonar í leiknum um 5. sætið á morgun.
Úr leik Portúgals og Króatíu á HM U-21 árs. Sigurvegarinn mætir strákunum hans Arnórs Atlasonar í leiknum um 5. sætið á morgun. vísir/iþs

Úrslitahelgi heimsmeistaramóts U-21 árs handbolta karla fer fram í stærstu og einni flottustu íþróttahöll Berlínar.

Höllin er nefnd í höfuðið á Max Schmeling, frægasta hnefaleikakappa Þjóðverja. Hún er þriðja stærsta íþróttahöll Berlín á eftir Mercedes Benz höllinni og Velodrom.

Max Schmeling höllin var opnuð 1996 og var heimavöllur körfuboltaliðsins Alba Berlin í tólf ár. Martin Hermannsson lék við góðan orðstír með Alba Berlin fyrir nokkrum árum.

Max Schmeling höllin er vinsæl tónleikahöll og hefur meðal annars hýst tónleika með bandarísku metalsveitinni Manowar.vísir/iþs

Frá 2005 hefur Max Schmeling höllin verið heimavöllur Füchse Berlin, eins sterkasta handboltaliðs Þýskalands. Dagur Sigurðsson þjálfaði liðið á árunum 2009-15 og gerði það að þýskum bikarmeisturum 2014 auk þess sem það vann Evrópudeildina 2015.

Max Schmeling höllin getur mest tekið tólf þúsund áhorfendur á handboltaleikjum. Allt að fjögur þúsund manns gætu verið á undanúrslitaleikjunum á HM U-21 árs í dag.

Nokkur fjöldi Íslendinga er í Berlín og hefur verið á leikjum liðsins á mótinu til þessa. Talið er að tæplega hundrað Íslendingar gætu verið á leikjunum um helgina.

Leikur Íslands og Ungverjalands hefst klukkan 13:30 að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×