Handbolti

„Fundum okkur eiginlega aldrei í leiknum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andri Már Rúnarsson skoraði þrjú mörk gegn Ungverjum.
Andri Már Rúnarsson skoraði þrjú mörk gegn Ungverjum. IHF/Sasa Pahic Szabo/kolektiff

Andri Már Rúnarsson, leikmaður U-21 árs landsliðs Íslands í handbolta, var að vonum svekktur eftir tapið fyrir Ungverjalandi, 37-30, í undanúrslitum á HM í dag.

Íslenska liðið átti erfitt uppdráttar í dag gegn gríðarlega öflugum Ungverjum sem gáfu engin grið. Mestur varð munurinn á liðunum ellefu mörk.

„Við fundum okkur eiginlega aldrei í leiknum. Við byrjuðum illa. Vörnin small ekki og þá fer sjálfstraustið úr okkur,“ sagði Andri í samtali við Vísi eftir leikinn í Max Schmeling höllinni í dag.

„Þeir skoruðu nokkur mörk og við náðum ekki að svara fyrir það. Við vorum hikandi í sókninni og náðum ekki að koma okkur aftur inn í leikinn.“

En fannst Andra einhvern tímann vera smuga að komast inn í leikinn?

„Maður hafði alltaf trú á þessu og hélt áfram að berjast og berjast. Því miður gekk það ekki í dag,“ svaraði Andri. „Svona er þetta. En það er annar leikur á morgun sem við ætlum að vinna.“

Andri vísaði þar til leiksins um bronsverðlaunin þar sem Ísland mætir tapliðinu úr seinni undanúrslitaleiknum. Þar mætast Þýskaland og Serbía.

„Við þurfum bara að vera snöggir að jafna okkur. Við ætlum klárlega að sækja þessa medalíu. Við þurfum að hrista þetta af okkur og það er bara næsti leikur á morgun,“ sagði Andri að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×