Handbolti

Komast í sögubækurnar með öðrum sigri á Serbum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísland mætir Serbíu í lokaleik sínum á HM.
Ísland mætir Serbíu í lokaleik sínum á HM. IHF/Sasa Pahic Szabo/kolektiff

Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri getur tryggt sér bronsverðlaun á HM með sigri á Serbíu í dag.

Ísland tapaði fyrir Ungverjalandi, 37-30, í undanúrslitum á HM í gær. Þetta var fyrsta tap íslenska liðsins á mótinu.

Serbía tapaði einnig í undanúrslitum í gær, fyrir Þýskalandi í miklum markaleik, 40-30. Serbar héngu í Þjóðverjum framan af leik en í seinni hálfleik voru heimamenn sterkari og unnu tíu marka sigur. Þeir mæta Ungverjalandi í úrslitaleiknum seinna í dag.

Leikur Íslands og Serbíu hefst klukkan 13:30 að íslenskum tíma. Með sigri vinna íslensku strákarnir brons og jafna þar með besta árangur Íslands á HM í þessum aldursflokki.

Ólafur Stefánsson, Dagur Sigurðsson, Patrekur Jóhannesson og félagar unnu brons á HM í Egyptalandi fyrir þrjátíu árum.

Heyra mátti á íslensku strákunum í viðtölum eftir leikinn í gær að þeir ætluðu að hrista vonbrigðin eftir tapið fyrir Ungverjum fljótt af sér og mæta kattfrískir í leikinn gegn Serbum.

„Allar þessar fyrirmyndir sem náðu þessu og við ætlum að verða fyrirmyndir eins og þeir,“ sagði Eyjamaðurinn Arnór Viðarsson um möguleikann á að komast í sögubækurnar.

Ísland og Serbíu mættust í lokaumferð riðlakeppninnar á HM þar sem Íslendingar unnu þriggja marka marks sigur, 29-32.

Símon Michael Guðjónsson skoraði átta mörk fyrir Ísland í leiknum og Andri Már Rúnarsson fjögur. Milos Kos skoraði níu mörk fyrir Serbíu. Hann skoraði einnig níu mörk gegn Þýskalandi í gær og er áttundi markahæsti leikmaður HM með 44 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×