Handbolti

„Ég fór nú bara að horfa á markið og skjóta“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þorsteinn Leó býr sig undir að skjóta á mark Serba.
Þorsteinn Leó býr sig undir að skjóta á mark Serba. IHF

Þorsteinn Leó Gunnarsson var valinn maður leiksins þegar Ísland tryggði sér bronsverðlaun með sigri á Serbíu á HM U21-árs landsliða í handbolta. Hann sagði liðsframmistöðu hafa skilað sigrinum.

„Það gæti verið aðeins betra, gull eða silfur. Við erum sáttir með þennan árangur að fá bronsið,“ sagði Þorsteinn Leó í samtali við Ingva Þór Sæmundsson eftir leikinn í Berlín í dag.

Ísland tapaði nokkuð illa gegn Ungverjum í undanúrslitum í gær og í upphafi leiks var eins og tapið sæti aðeins í þeim.

„Maður reyndi bara að gleyma leiknum eins fljótt og maður gat og koma sér í gírinn fyrir bronsið. Við misstum agann í fyrri hálfleik, það var enginn agi og við vorum að taka ótímabær skot. Í seinni hálfleik fórum við aftur í leikáætlunina og þetta gekk.“

Frammistaða Íslands í seinni hálfleik var frábær og það var einn þeirra betri hálfleikur á mótinu.

„Það er hægt að segja það, liðsframmistaða í seinni hálfleik og það skilaði okkur sigri í dag.“

Sjálfur var Þorsteinn Leó valinn maður leiksins en hann skoraði átta mörk og þar af fimm í seinni hálfleiknum. Hvað breyttist síðan í leiknum í gær?

„Ég fór nú bara að horfa á markið og skjóta. Það var ekkert öðruvísi en það og skotin fóru inn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×