Fótbolti

Gengur hvorki né rekur hjá Messi og félögum

Siggeir Ævarsson skrifar
Messi hefur ekki enn leikið sinn fyrsta leik með Inter Miami, en klórar sér sennilega í hausnum yfir gengi liðsins
Messi hefur ekki enn leikið sinn fyrsta leik með Inter Miami, en klórar sér sennilega í hausnum yfir gengi liðsins Vísir/Getty

Inter Miami situr sem fastast á botni MLS deildarinnar í Bandaríkjunum, en liðið tapaði nokkuð örugglega fyrir Saint Louis City á útivelli í nótt, 3-0. Lionel Messi á enn eftir að leika sinn fyrsta leik fyrir félagið.

Messi á ærið verkefni fyrir höndum að rétta af skútuna hjá Inter en liðið situr á botni deildarinnar með 18 stig eftir 22 leiki og hefur ekki unnið leik síðan 13. maí. Síðan þá hefur liðið leikið ellefu leiki, gert þrjú jafntefli en tapað átta leikjum.

Líkt og í flestum stóru íþróttadeildunum í Bandaríkjunum falla engin lið svo að Messi er í það minnsta ekki á leið niður um deild þó honum takist ekki að snúa gengi liðsins við. Reiknað er með að Messi leiki sinn fyrsta leik fyrir Inter þann 21. júlí, á föstudaginn, þegar liðið mætir Cruz Azul í deildarbikarnum.

Leikurinn verður á heimavelli Inter í Fort Lauderdale í Flórída. Völlurinn tekur 18.000 manns í sæti alla jafna en 22.000 miðar eru í boði á leikinn að þessu sinni, og seljast þeir á svívirðilegu verði á svörtum markaði þessa dagana.


Tengdar fréttir

Messi kynntur til leiks hjá Inter Miami

Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi, einn besti knattspyrnumaður sögunnar, er opinberlega genginn til liðs við Inter Miami.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×