Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Dvöl eða umferð almennings er bönnuð á skilgreindu hættusvæði sem sjá má yfirstrikað á meðfylgjandi korti.
Kortið sýnir auk þess gönguleiðir að útsýnisstöðum en lögregla, landverðir og björgunarsveitir verða á svæðinu. Fólki er bent á að ganga að Hraunssels-Vatnsfelli, suðaustan við Litla-Hrút en er ekki heimilað að ganga lengra eða fara nær gosinu.

Lögregla með auknar valdheimildir í ljósi hættustigs
Hættustig almannavarna er áfram í gildi vegna eldgossins við Litla-Hrút en við slíkar aðstæður virkjast valdheimildir sem kveðið er á um í lögum um almannavarnir. Hættustund hefst þegar hættustigi eða neyðarstigi almannavarna er lýst yfir og lýkur þegar því er aflýst.
„Á hættustundu er lögreglustjóra heimilt að ákveða að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl eða umferð á ákveðnum svæðum svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, þ.m.t. tilteknar fasteignir, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk. Fyrirmælum þessu er öllum skylt að hlíta,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, sagði í samtali við fréttastofu fyrir hádegi að stefnt væri að því að slökkva seinustu kafla gróðureldanna í dag. Mikil skaðleg mengun hefur komið frá þurrum mosa síðustu daga sem hefur logað glatt eftir að hann komst í snertingu við eldheitt hraunið frá eldgosinu.
Fylgjast má með stöðu eldgossins í vefmyndavél Vísis.
Fréttin hefur verið uppfærð.