Innlent

Heita­­vatns­­­laust í öllum Hafnar­­firði og hluta Garða­bæjar frá mánu­­degi til mið­viku­­dags

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Íbúar í öllum Hafnarfirði verða án vatns í rúma tvo sólarhringa í næstu viku.
Íbúar í öllum Hafnarfirði verða án vatns í rúma tvo sólarhringa í næstu viku. Vísir/Vilhelm

Vegna tengingar á nýrri stofnlögn hitaveitu verður heitavatnslaust í öllum Hafnarfirði og litlum hluta Garðabæjar frá kl. 22.00 mánudaginn 21. ágúst næstkomandi til kl. 10.00 að morgni miðvikudagsins 23. ágúst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum. Þar segir að þetta sé gert til þess að auka flutningsgetu og mæta aukinni eftirspurn í bænum vegna fjölgunar íbúðarhúsnæðis og stækkun bæjarins og tryggja íbúum Hafnarfjarðar heitt vatn til næstu áratuga.

Tekið er fram í tilkynningunni að það sé ekki á hverjum degi sem ný stofnlögn sé lögð í grónu hverfi. Endurnýjun stofnlagna sé stórt og tímafrekt verk. 

Veitur muni kappkosta við að vinna verkið hratt og örugglega. Hægt verði að fylgjast með verkinu á vef Veitna.

Eftirfarandi götur í Garðabæ verða fyrir áhrifum af lokuninni: Boðahlein, Naustahlein, Hraunholt, Hraungarðar, Hraunhóll, Hraunhamrar, Hrauntunga, Hraunkot, Hraunborg, Gimli, Björk, Brandstaðir, Garðahraun, Miðhraun, Norðurhraun, Suðurhraun og Vesturhraun.

Um er að ræða töluverðan fjölda sem verður heitavatnslaus á meðan framkvæmdum stendur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×