Ísland er ekki sér á báti hvað varðar fjölgun Covid-smitaðra undanfarið því sama er að gerast í löndunum í kring að sögn Guðrúnar Aspelund sóttvarnalæknis. Einkenni veikindanna séu svipuð og áður. „Við höfum ekki séð nein merki um meiri veikindi, það er að segja, fleiri innlagnir eða alvarleika,“ segir Guðrún.
Litlar líkur á aðgerðum
Ekki séu miklar líkur á því að grípa þurfi til aðgerða. „Við ætlum að hvetja til að eldra fólk og áhættuhópar þiggi bólusetningu núna í haust en annars finnst mér ekki líklegt að það verði neinar aðrar aðgerðir.“
Fólk smitist nú af mismunandi afbrigðum Ómíkron sem séu fjölmörg. Innlögnum á sjúkrahúsum hafi þó ekki fjölgað vegna Covid.
Sýkingar auki álag
„Því miður hafa komið upp sýkingar á spítalanum bæði hjá sjúklingum og starfsfólki og það auðvitað eykur álagið og getur valdið fólki meiri erfiðleikum að fá slíkt ofan á aðra sjúkdóma sem það er með fyrir,“ segir Guðrún og bætir við að eldra fólk og áhættuhópar séu mestri hættu á að verða alvarlega veik af völdum Covid.
„Það er þannig að því eldri sem þú ert því meiri er hættan á að verða alvarlega veikur og síðan er það fólk með undirliggjandi sjúkdóma yfirleitt langvinna sjúkdóma sérstaklega ónæmisbælingu, hjarta- og lungnasjúkdóma, sykursýki og fleira,“ segir hún jafnframt.