Lífið

Um­deild af­sökunar­beiðni vegna enn um­deildari bréfa

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ashton Kutcher og Mila Kunis biðjast afsökunar. Þau kynntust við tökur á That 70's Show, þar sem Danny Masterson fór einnig með hlutverk.
Ashton Kutcher og Mila Kunis biðjast afsökunar. Þau kynntust við tökur á That 70's Show, þar sem Danny Masterson fór einnig með hlutverk.

Leikarahjónin Mila Kunis og Ashton Kutcher hafa sætt harðri gagnrýni nú um helgina eftir að meðmælabréf sem þau skrifuðu um leikarann Danny Masterson voru birt. Masterson var á fimmtudag dæmdur í þrjátíu ára fangelsi fyrir nauðgun.

Kviðdómur sakfelldi Masterson í maí síðastliðnum fyrir að hafa nauðgað tveimur konum í kringum aldamót. Það var svo ekki fyrr en nú rétt fyrir helgi sem dómurinn yfir Masterson var kveðinn upp.

Masterson, Kutcher og Kunis léku í sjónvarpsþáttunum That 70's Show og urðu góðir vinir meðan á tökum þáttanna stóð. Eftir dómsuppkvaðninguna á fimmtudag kvisaðist út að Kutcher og Kunis hefðu skrifað meðmælabréf fyrir Masterson, sem skilað var inn til dómara í málinu. 

Bréf af þessu tagi eru gjarnan send til dómara í dómsmálum vestanhafs. Dómarinn getur tekið bréfin til greina við ákvörðun refsingar yfir sakborningum. Bréf Kutchers og Kunis voru skrifuð eftir að Masterson var sakfelldur en áður en refsing hans var ákvörðuð. Bréfin voru loks birt á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum vestanhafs um helgina.

Sannsögull og stundvís

Auk Kutchers og Kunis sendu um fimmtíu vinir og skyldmenni Mastersons meðmælabréf til dómarans. Hjónin eru þó óumdeilanlega langfrægust meðmælenda, auk þess sem þau hafa gert mjög út á baráttu gegn kynlífsþrælkun og kynferðisbrotum gegn börnum síðustu ár. Það er því kannski ekki að undra að bréf þeirra hafi vakið sérstaka eftirtekt.

Hjónin fara í bréfum sínum fögrum orðum um Masterson og votta um manngæsku hans, ráðvendni og iðjusemi. Kutcher lýsir Masterson sem góðum vini og fyrirmynd, sannsöglum með eindæmum - og nefnir jafnframt sérstaklega að Masterson hafi ávallt verið stundvís. Bæði bréfin má lesa í heild hér.

Umsagnir hjónanna um Masterson hafa reitt marga til reiði. Þau hafa sætt harðri gagnrýni á samfélagsmiðlum fyrir að styðja dæmdan nauðgara. Þá hafa netverjar margir bent á að þó að menn séu gæddir jákvæðum eiginleikum séu þeir fullfærir um að nauðga. Hið gagnstæða megi lesa úr bréfum Kutcher og Kunis.

Það var svo í gær sem hjónin fundu sig knúin til að biðjast afsökunar á meðmælaskrifunum í sameiginlegri yfirlýsingu á Instagram-reikningi Kutchers. Sýnt var úr afsökunarbeiðninni og meðmælabréfi Kutchers í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Kutcher og Kunis benda á í afsökunarbeiðni sinni að fjölskylda Mastersons hafi beðið þau hjónin sérstaklega um meðmæli. Þá hafi það ekki verið ætlun þeirra að draga niðurstöðu kviðdómsins í málinu í efa. 

„[Bréfin] voru ætluð dómaranum og áttu ekki að grafa undan vitnisburði fórnarlambanna eða skaða þau á nokkurn hátt,“ sagði Kutcher í yfirlýsingunni. Hjónin hafa fengið yfir sig aðra holskeflu af gagnrýni fyrir afsökunarbeiðnina, sem mörgum þykir duga skammt. Því hefur verið fleygt að framkoma hjónanna sé vélræn og skorti alla einlægni. Frammistaðan sé raunar með ólíkindum, miðað við að þar fari tveir leikarar. 


Tengdar fréttir

„That 70s Show“ leikari dæmdur fyrir nauðgun

Leikarinn Danny Masterson, sem er hvað þekktastur fyrir að leika í þáttunum That ’70s Show, sem nutu mikilla vinsælda um og eftir aldarmótin síðustu, hefur verið sakfelldur fyrir að nauðga tveimur konum. Kviðdómendur komust ekki að niðurstöðu varðandi þriðju nauðgunina sem hann var ákærður fyrir.

Dómari ógildir réttarhöldin yfir Masterson

Dómari ógilti réttarhöld yfir leikaranum Danny Masterson í gær, þar sem kviðdómurinn gat ekki náð saman um niðurstöðu. Masterson var ákærður fyrir þrjár nauðganir og hefur notið stuðnings Vísindakirkjunnar í baráttu sinni gegn ásökununum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×