Innlent

Ætla sér að finna nýjan stað fyrir Lilla­róló

Atli Ísleifsson skrifar
Lillaróló við Höfðatún á Hólmavík hefur verið byggður upp og viðhaldið af Lýði Jónssyni þúsundþjalasmið.
Lillaróló við Höfðatún á Hólmavík hefur verið byggður upp og viðhaldið af Lýði Jónssyni þúsundþjalasmið. Strandabyggð

Til stendur að reisa íbúðabyggingu á lóðinni við Höfðatún á Hólmavík þar sem hinn svokallaði Lillaróló hefur staðið um árabil og er ljóst að finna þarf nýjan stað undir leikvöllinn. Tveir staðir hafa helst verið nefndir til sögunnar sem mögulegar framtíðarstaðsetningar fyrir Lillaróló.

Málið var til umræðu á síðasta sveitarstjórnarfundi Strandabyggðar þar sem bréf frá íbúa um málið var tekið fyrir. Fram kemur að ljóst sé að Lillaróló þurfi að víkja fyrir íbúðabyggingu og því þurfi að finna nýjan stað fyrir leikvöll með sama nafni.

Segir að tvær staðsetningar hafi helst verið ræddar; við matsal Krambúðarinnar við Höfðatún annars vegar og við ærslabelginn við íþróttamiðstöðina hins vegar.

Þorgeir Pálsson er sveitarstjóri Strandabyggðar.Vísir/Sigurjón

Fram kemur í fundargerðinni að sveitarstjórn telji rétt að bera málið undir stjórn Hornsteina, sem lóðarhafa Krambúðarinnar – verkefni sem sveitarstjóranum Þorgeiri Pálssyni hefur verið falið. Sveitarstjóranum var sömuleiðis falið að undirbúa mat á umræddum mögulegu framtíðarstaðsetningum, kostum þeirra á göllum.

Fram kemur að sveitarstjórn staðfesti að hún muni taka jákvætt í að aðstoða við uppsetningu leiktækja, þegar þar að kemur.

Byggður upp og viðhaldið af Lýði þúsundþjalasmið

Á vef Strandabyggðar segir að leiksvæðið Lillaróló hafi verið starfrækt við Höfðatún í allmörg ár. 

„Völlurinn hefur verið byggður upp og viðhaldið af Lýði Jónssyni þúsundþjalasmið, en hann hefur smíðað leiktæki og séð um viðhald á vellinum í sjálfboðavinnu. Leiksvæðið er öllum opið og talsvert mikið notað, enda er fjöldi barna búsettur „úti í hverfi“. Á Lilla-róló eru alls níu leiktæki, róla, kastali, vegasölt, smákofi, sandkassi, stauraveggur, bátur og rennibraut,“ segir um svæðið.

Báturinn á Lillaróló.Strandabyggð



Fleiri fréttir

Sjá meira


×