FH liðið hefur lent undir í sextán leikjum og náð í stig úr helmingi þeirra eða samtals sextán stig. FH hefur unnið fjóra leiki þar sem þeir hafa lent undir og náð jafntefli í fjórum til viðbótar.
FH er með fimm stigum meira en næstu lið á listanum sem eru Fylkir og KA með ellefu karakterstig hvort. HK (10 stig) er síðan á undan Íslandsmeisturum Víkinga og Eyjamönnum.
Á hinum endanum sitja Blikar einir og sér á botninum. Blikar hafa aðeins náð tveimur stigum út úr leikjunum þar sem þeir lenda undir. Blikar hafa lent undir í níu leikjum og tapað sjö þeirra. Liðið náði í jafntefli á móti Stjörnunni (1-1) og Víkingum (2-2).
Blikar eru tveimur stigum á eftir KR-ingum sem sitja í ellefta og næstsíðasta sæti. KR hefur náð í stig út úr síðustu tveimur leikjum þar sem þeir hafa lent undir, á móti Víkingi og Val.
25. umferð Bestu deildar karla fer öll fram í dag. Dagurinn byrjar á leik KA og ÍBV sem verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 16.15. Hinir leikirnir fara allir fram klukkan 19.15.
Leikur Vals og Breiðabliks verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og leikur Stjörnunnar og KR verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.
Hinir þrír leikirnir, Víkingur-FH, Fram-Keflavík og HK-Fylkir, verða sýndir á Bestu deildar stöðvunum.
Stúkan verður síðan í beinni á Stöð 2 Sport frá klukkan 21.30.
- Flest karakterstig í Bestu deild karla
- (Stig úr leikjum þar sem liðið lendir undir)
- 1. FH 16 stig
- 2. Fylkir 11 stig
- 2. KA 11 stig
- 4. HK 10 stig
- 5. ÍBV 8 stig
- 5. Víkingur 8 stig
- 7. Valur 7 stig
- 8. Fram 6 stig
- 8. Keflavík 6 stig
- 8. Stjarnan 6 stig
- 11. KR 4 stig
- 12. Breiðablik 2 stig