Innlent

Afla enn gagna við rann­sókn á flug­slysinu við Sauða­hnjúka

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vélin brotlenti við Sauðahnjúk milli Hornbrynju og Hraungarða.
Vélin brotlenti við Sauðahnjúk milli Hornbrynju og Hraungarða. Stöð 2

Rann­sóknar­nefnd sam­göngu­slysa aflar enn gagna vegna flug­slyssins sem varð við Sauða­hnjúka á Austur­landi þann 9. júlí síðast­liðinn þar sem þrír létust. Þetta kemur fram í svörum nefndarinnar við fyrir­spurn frétta­stofu.

Þar segir að nefndin hafi þann 14. septem­ber síðast­liðin á­kveðið á nefndar­fundi að bíða með út­gáfu bráða­birgða­skýrslu. Enn væri verið að afla gagna og vinna úr þeim.

Áður hafði nefndin sagt við frétta­stofu að skýrslunnar væri að vænta í ágúst. Vélin TF-KLO hafði innan­borðs tvo starfs­menn Náttúru­stofu Austur­lands auk flug­manns og voru þeir við reglu­legar hrein­dýratalningar þegar slysið varð.

Sam­kvæmt flug­á­ætlun átti vélin að fljúga sjón­flug frá Egils­staða­flug­velli um Snæ­fell, Hraundali og Vestur-Ör­æfi og koma aftur til Egils­staða eftir fjórar klukku­stundir. Vélin tók á loft frá Egils­stöðum kl. 13:29 og hefði sam­kvæmt flug­á­ætlun átt að koma til baka kl. 17:29.

Tæpum hálf­tíma fyrir þann tíma, klukkan 17:01, nam Land­helgis­gæslan boð frá neyðar­sendi flug­vélarinnar. Þegar engin svör bárust frá flug­vélinni hófst um­fangs­mikil leit að henni. Á áttunda tímanum þann 9. júlí töldu flug­menn á­ætlunar­flug­vélar Icelandair til Egils­staða sig síðan sjá flak flug­vélarinnar við Sauða­hnjúk, sem reyndist rétt.

Rann­sókn flug­slysa lýtur ná­kvæmum al­þjóð­legum reglum og fer fram á vett­vangi Rann­sóknar­nefndar sam­göngu­slysa. Hún hefst um leið og til­kynning um flug­slys berst nefndinni.

Vett­vangurinn er rann­sakaður og gagna aflað og stutt við­töl tekin. Eftir það hefst svo kölluð frum­rann­sókn sem getur staðið yfir í nokkrar vikur, jafn­vel tvo mánuði.

Sú rann­sókn stendur enn yfir. Að henni lokinni er gefin út bráða­birgða­skýrsla. Eftir út­gáfu bráða­birgða­skýrslunnar hefst hin eigin­lega rann­sókn með úr­vinnslu gagna, prófunum á kerfum, í­hlutum og fleira.


Tengdar fréttir

Flug­slysið hoggið stórt skarð í lítinn starfs­manna­hóp

Stjórn og starfsfólk Náttúrustofu Austurlands er harmi slegið eftir að tveir samstarfsfélagar þeirra og vinir létust í flugslysi á Austurlandi síðastliðinn sunnudag. Fríða Jóhannes­dóttir spen­dýra­fræðingur og Skarp­héðinn G. Þóris­son líf­fræðingur voru við reglulegar hreindýratalningar þegar slysið átti sér stað. Auk þeirra fórst Kristján Orri Magnús­son, flugmaður vélarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×