Fótbolti

Åge um valið á Gylfa: „Mun hafa mjög góð og sterk á­hrif“

Aron Guðmundsson skrifar
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands er spenntur fyrir verðandi félagsskiptum Gylfa Þórs
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands er spenntur fyrir verðandi félagsskiptum Gylfa Þórs Vísir/Getty

Gylfi Þór Sigurðs­son hefur verið valinn í ís­lenska karla­lands­liðið í fót­bolta á nýjan leik. Gylfi er hluti af lands­liði Ís­lands sem leikur tvo heima­leiki í undan­keppni EM 2024 síðar í mánuðinum.

Åge Hareide, lands­liðs­þjálfari ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta hefur opin­berað lands­liðs­hópinn fyrir komandi verk­efni og er Gylfi Þór þar á meðal. Gylfi lék síðast leik með ís­lenska lands­liðinu þann 15.nóvember árið 2020 gegn Dan­mörku á Parken.

Í apríl fyrr á þessu ári varð ljóst að Gylfi yrði ekki á­kærður í Bret­landi vegna meintra brota gegn ó­lög­ráða ein­stak­lingi. Hann var hand­tekinn vegna málsins í júlí 2021 og sætti löngu far­banni. Rann­sóknin stóð alls yfir í 637 daga og hélt Gylfa fjarri knatt­spyrnu­vellinum.

Hann hefur nú hafið at­vinnu­manna­feril sinn á ný. Nú hjá danska úr­vals­deildar­fé­laginu Lyng­by og mun nú koma lands­liðs­ferlinum aftur af stað. Gylfi hefur í tví­gang farið með ís­lenska lands­liðinu á stór­mót, spilað 78 lands­leiki og skorað í þeim leikjum 25 mörk.

Åge Hareide, landsliðsþjálfari Íslands vill hafa Gylfa Þór með liðinu þó hann hafi spilað lítið upp á síðkastið.

„Ég hef rætt nokkrum sinnum við hann. Gyfli er einn besti leikmaður íslands frá upphafi. Hann meiddist á dögunum á baki en honum líður strax mjög vel.

Ég vil hafa hann í kringum okkur, hann er okkur mikilvægur. Ég vil koma honum inn í okkar áætlanir með landsliðið. Hann mun hafa mjög góð og sterk áhrif á okkur.“

Bæði Gylfi og Aron Einar eru í hópnum þrátt fyrir að hafa ekki spilað mikið upp á síðkastið. Hefur Åge áhyggjur af því hvaða skilaboð það gæti sent til leikmanna sem hafa spilað mikið, spilað vel en eru ekki í hópnum?

„Það hefur verið í huga mínum. Við þurfum að vera sanngjarnir við alla leikmenn. En leikmenn vita hversu mikið áhrif Aron Einar og Gylfi hafa á aðra í kringum sig.

Þú verður að vera í goðu formi til að geta æft með liðinu. Ég mun ræða við þá báða í vikunni, þeir hafa báðir verið að æfa og líður vel. Áður en ég kem til Íslands vil ég vera viss um að þeir geti æft með okkur og tekið vel þátt í okkar verkefni.

Ég á ekki von á því að þeir byrji gegn Lúxemborg en geti vel tekið þátt gegn Liechtenstein.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×