Fótbolti

Messi sagði ungum leik­manni Inter að ganga meira

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Messi er þekktur fyrir að spara hlaupin fyrir þau augnablik þegar hann er með boltann við tærnar.
Messi er þekktur fyrir að spara hlaupin fyrir þau augnablik þegar hann er með boltann við tærnar. Lintao Zhang/Getty Images

Lionel Messi er án alls efa einn albesti knattspyrnumaður sögunnar og mögulega einn besti íþróttamaður sögunnar sömuleiðis. Það kom því verulega á óvart þegar David Beckham opinberaði hvaða ráð Messi gaf ungum leikmönnum Inter Miami á dögunum.

Messi sagði ungum leikmönnum Inter að ganga meira

Hinn 36 ára gamli Messi spilar með Inter Miami í MLS-deildinni í Bandaríkjunum eftir að hafa gert garðinn frægan í Katalóníu áður en haldið var til Parísar. Undir lok veru sinnar hjá Barcelona, sem og með landsliði Argentínu, var Messi talinn ganga fullmikið á meðan leik stóð.

Það kom þó ekki að sök þar sem Barcelona vann hvern titilinn á fætur öðrum þökk sé hetjudáðum Messi. Sömu sögu var ekki að segja um landsliðsferil hans, það er fyrr en í desember á síðasta ári.

Þá var Messi mættu til París Saint-Germain og farinn að ganga enn meira á meðan leik stóð. Hann hélt því áfram með landsliðinu en það kom ekki að sök þar sem Argentína fór alla leið og stóð uppi sem heimsmeistari eftir ævintýralegan sigur á Frakklandi í úrslitum.

Það var svo síðasta sumar sem Messi fór til Inter á Miami. Hann hefur spilað frábærlega með liðinu og lyft því verulega upp. Hann er þó enn gangandi á meðan leik stendur og það var einmitt ráð hans til ungra leikmanna, að ganga meira.

Þetta opinberaði David Beckham, einn af eigendum félagins. Beckham sagði að einn af efnilegustu leikmönnum liðsins hafi verið spurður út í hvað væri besta ráð sem Messi hefði gefið honum.

„Hann sagði mér að ganga meira, þá sér maður leikinn betur,“ á Messi að hafa sagt við drenginn.

Beckham sá fyndnu hliðina á þessu en vonast þó eflaust eftir að drengirnir í akademíu félagsins hætti ekki alfarið að hlaupa því það er ljóst að lið vinna ekki marga fótboltaleiki ef allir leikmenn liðsins spila á gönguhraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×