Erlent

Tilnefna Steve Scalise

Samúel Karl Ólason skrifar
Steve Scalise (til hægri) virðist eiga mikið verk fyrir höndum við að tryggja sér nægilega mörg atkvæði innan þingflokks Repúblikana til að eiga séns á að verða þingforseti.
Steve Scalise (til hægri) virðist eiga mikið verk fyrir höndum við að tryggja sér nægilega mörg atkvæði innan þingflokks Repúblikana til að eiga séns á að verða þingforseti. AP/Mark Schiefelbein

Repúblikanar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa tilnefnt Steve Scalise til embættis þingforseta. Þingmaðurinn Jim Jordan, sem einnig sóttist eftir embættinu, hefur lýst yfir stuðningi við Scalise.

Það gerði Jordan eftir atkvæðagreiðslu í þingflokknum um að tilnefnda Scalise en sá síðarnefndi fékk 113 atkvæði. Jordan fékk 99. átta þingmenn greiddu öðrum atkvæði og þrír sátu hjá.

Eins og þekkt er var Kevin McCarthy vikið úr embætti þingforseta í síðustu viku þegar átta Repúblikanar og allir þingmenn Demókrataflokksins greiddu atkvæði með vantrauststillögu gegn honum. Þingmennirnir átta voru þeir sömu og komu lengi í veg fyrir að hann yrði forseti í upphafi kjörtímabilsins.

Þetta var í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna sem vantrauststillaga gegn þingforseta er samþykkt í fulltrúadeildinni.

Vantrauststillagan var meðal annars lögð fram vegna þess að McCarthy gerði samkomulag við Demókrata til að koma í veg fyrir lokun opinberra stofnana. Þingið samþykkti bráðabirgðafjárlög til 45 daga á síðustu stundu.

Repúblikanar slitu þá þingi og gáfu sér viku til að finna nýjan þingforseta. Þingið hefur verið lamað í nokkrar vikur.

Ekki liggur fyrir hvenær atkvæðagreiðslan fer fram en ólíklegt þykir að það verði í kvöld, þar sem Scalise virðist ekki nærri því að tryggja sér þau atkvæði sem hann þarf til að tryggja sér embættið.

Washington Post hefur eftir McCarthy að hann muni styðja frambjóðanda flokksins.

Scalise hefur lengi verið háttsettur innan þingflokks Repúblikanaflokksins en situr á þingi fyrir Louisiana. Scalise berst þessa dagana við krabbamein og særðist í skotárás árið 2017.

Hann hefur lengi verið umdeildur og þá meðal annars fyrir að hafa á árum áður verið bendlaður við rasista í Bandaríkjunum.

John Earnest, þáverandi fjölmiðlafulltrúi Barack Obama Bandaríkjaforseta, sagði á árum áður að Scalise hafi eitt sinn lýst sjálfum sér sem „Ku Klux Klan leiðtoganum David Duke, án alls farangursins“.


Tengdar fréttir

Sam­þ­ykkt­­u bráð­a­birð­ga­fjár­l­ög á síð­­ust­­u stund­­u

Bandarískir þingmenn samþykktu á síðustu stundu í nótt nýtt fjárlagafrumvarp til bráðabirgða og komu þannig í veg fyrir lokun opinberra stofnanna. Sú lokun átti formlega að hefjast á miðnætti í nótt, að staðartíma, og hefur verið frestað um 45 daga. Fjárlögin nýju gætu kostað forseta fulltrúadeildarinnar embættið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×