Helena Rós fréttamaður okkar fylgdist með málinu í dag og ræddi meðal annars við fólkið sem veitti stúlkunni fyrstu hjálp eftir árásina. Helena fer yfir vendingar dagsins í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 á slaginu 18:30.
Enn er óvíst hver ber ábyrgð á sprengingu sem varð allt að fimm hundruð manns að bana á Gasasvæðinu í gær. Nýr utanríkisráðherra segir að í stóra samhenginu skipti ekki máli hver beri ábyrgð heldur þurfi að bjarga óbreyttum borgurum sem búa á Gasa og í Ísrael.
Blóðugur hnífur fannst í íbúð í Drangarhrauni í Hafnarfirði í fyrradag, þar sem Jaroslaw Kaminski var stunginn til bana í sumar. Margrét Björk fréttamaður okkar fer yfir málið í beinni útsendingu og segir okkur hvað þessar nýju vendingar þýða fyrir framhald málsins.
Við segjum einnig frá nýjum niðurstöðum loftslagsskýrslu sem kynnt var í dag. Allt stefnir í að veðurfar á Íslandi í lok aldarinnar verði gjörbreytt frá því sem nú er - og verið hefur allt frá landnámi. Við verðum að bregðast strax við, segir sérfræðingur.
Þá sýnum við frá 75 ára afmælisráðstefnu flugumferðarstjórnar á Íslandi og Magnús Hlynur leiðir okkur í gegnum hitafund um heilsugæslumál í Bláskógabyggð í gærkvöldi.
Þjálfari karlalandsliðs Jamaica, okkar eigin Heimir Hallgrímsson, verður í forgrunni í Sportpakka kvöldsins og í Íslandi í dag heyrum við sögu Esterar, sem glímir við mígreni yfir tuttugu daga í hverjum mánuði.