Um 100 manns standa nú fyrir utan ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu þar sem þau krefjast þess að íslensk stjórnvöld „fordæmi opinberlega án tafar stríðsglæpi og ítrekuð fjöldamorð ísraelska hersins á Gaza og beiti sér fyrir því að ísraelsk stjórnvöld láti strax af þjóðernishreinsun sinni á Palestínu“.

Í viðburði mótmælanna á Facebook segir að með mótmælunum vilji þau sýna samstöðu með Palestínu og minna ríkisstjórnina á skyldur sínar gagnvart palestínsku þjóðinni.
„Það verður að bregðast við. Við getum ekki horft á fjöldamorð í beinni útsendingu,“ segir Sema Erla Serdaroglu, frá hjálparsamtökunum Solaris, sem skipulagði mótmælin.
Mótmælendur hafa afhent forsætisráðherra undirskriftalista þar sem kröfur þeirra koma fram.
Meðal mótmælenda eru formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, og Margrét Kristín Blöndal, sem betur er þekkt sem tónlistarkonan Magga Stína.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist hafa skilning á mótmælunum fyrir utan Ráðherrabústaðinn. Helena Rós Sturludóttir ræddi við Katrínu að loknum ríkisstjórnarfundi.
Fréttin var uppfærð með viðtali við forsætisráðherra.