Skoðun

Áskorun til kvenna og kvára í valdastöðum!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar

Barátta fatlaðra kvenna og kvára fyrir réttindum og afkomuöryggi er barátta fyrir jafnrétti og jafnræði. Jafnrétti þarf að vera milli kynja en líka milli hópa, til dæmis jaðarsettra hópa kvenna og kvára og hópa sem njóta forréttinda og standa betur. Sömu réttindi sama hver konan/kvár er. Sömu réttindi milli karla og svo kvenna og kvára, hvort sem viðkomandi eru fötluð af erlendu bergi brotin eður ei.

Jafnræði eða jöfnun snýst um að viðurkenna að öll erum við ólík og mikill munur getur verið á milli samfélagshópa. Við þurfum að viðurkenna að þessi munur getur skapað miklar áskoranir og hindranir fyrir sum. Jöfnun snýst um að skapa jöfn skilyrði og gefa þannig öllum sanngjarnt tækifæri til að ná árangri í sínu lífi óháð bakgrunni eða aðstæðum.

Fatlaðar konur eru útsettari fyrir mismunun, misrétti, ofbeldi og fátækt en aðrar konur. Þær þurfa oft á tíðum að reiða sig á aðstoð annarra og eiga þar af leiðandi erfiðara með að koma sér út úr ofbeldisaðstæðum. Fatlaðar konur hafa ekki sömu tækifæri til að mennta sig og þaðan af síður til að taka þátt á vinnumarkaði. Þá hafa fatlaðar konur og kvárar sjaldnast lífeyrir eða laun sem tryggja þeim framfærslu sem dugar til nauðsynja daglegs lífs. Fatlaðar konur og kvárar hafa því mun færri tækifæri en önnur til að bæta kjör sín og búa oftar við fátækt og ala börn sín upp í fátækt.

Konur eru konum bestar segir einhverstaðar, og ég er viss um að það er rétt.

Því skora ég á konur á Alþingi að breyta stöðunni fyrir fatlaðar kynsystur sínar og kvára, því þeirra er valdið.

Ég skora á þær að taka höndum saman við fatlaðar konur og kvára og breyta því að fatlaðar konur og kvárar séu dæmd til fátæktar af stjórnvöldum, að framfærsla þeirra nái ekki einu sinni lágmarkslaunum.

Ég skora á konur í valdastöðum, konur í atvinnulífinu og konur í stéttarfélögum að mótmæla þeirri „normaliseringu“ að fatlaðar konur og kvárar og börn þeirra búi við fátækt sem tekur af þeim flest eða öll tækifæri til að blómstra.

Ég skora á konur og kvára í valdastöðum:

-að uppræta fátækt með því að taka undir kröfu fatlaðs fólks um hækkun á lífeyrir, og tryggja hækkun svo framfærsla sé mannsæmandi.

-að beita sér fyrir því að fatlaðar konur og kvárar hafi jöfn tækifæri á við önnur til að mennta sig.

-að bjóða fötluðum konum og kvárum störf við hæfi, á launum sem eru þau sömu og önnur hafa fyrir samskonar störf.

-að bjóða fatlaðar konur og kvára velkomnar í sitt samfélag.

– Konur eru hreyfiafl, konur eru kraftur ...og konur breytum leiknum!

STÖNDUM SAMAN KONUR OG KVÁR

Höfundur er fötluð, stolt kona.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×