Samkvæmt nýju mati sem gert var á slysinu í kjölfar hoppukastalaslyssins á Akureyri árið 2021 var vindur líklega meiri en gert var ráð fyrir í fyrsta. Þetta kemur fram í mati sem gefið var út nýlega og er fjallað um það á vef RÚV.
Samkvæmt frétt RÚV er matið gert af tveimur byggingarverkfræðingum og verður tekið fyrir í héraðsdómi Norðurlands á mánudag í næstu viku. Þar kemur fram að engar leiðbeiningar hafi verið frá framleiðanda um hversu margar festingar þurfti fyrir kastalann. En eftir prófanir verkfræðinganna, meðal annars á kastala sambærilegum og var fyrir norðan í Hvalfirði, hafi þeir komist að því að festingarnar hafi þurft að vera 54 en ekki 172 eins og kom fram í fyrra mati.
Fyrra matið var gert af bæði veður- og verkfræðingum og var skilað fyrir um ári síðan. Samkvæmt því mat var kastalinn ekki nægilega vel festur eða nógu vel fylgst með börnunum sem voru í kastalanum.
Þá segir í frétt RÚV að mat verkfræðinganna sé, eins og í fyrra mati, að vindur hafi of mikill þannig að hægt væri að tryggja örugga notkun á kastalanum úti. Viðstaddir hafa þó oft greint frá því að sterk vindhviða hafi farið yfir svæðið og telja matsmennirnir að vindurinn hafi verið snarpari en mælar í nágrenni við svæðið sýndu.
Aðalmeðferð seinkað
Fimm eru ákærðir í málinu. Tveir sjálfboðaliðar á vegum íþróttafélagsins KA, sem hafði tekið að sér að útvega starfsmenn til að sinna miðasölu og umsjón með svæðinu, og þrír starfsmenn félagsins sem leigði hoppukastalann út.
Verjendur ákærðu voru ekki sáttir við niðurstöðu fyrra matsins og óskuðu því eftir nýju mati, sem nú hefur verið skilað og verður tekið fyrir í héraðsdómi Norðurlands á mánudag.
Til stóð að aðalmeðferð í málinu færi fram í maí en henni var frestað. Fimmmenningarnir eru sagðir hafa borið ábyrgð á öryggi barnanna sem voru að leik í hoppukastalanum með einum eða öðrum hætti.
Málið er höfðað vegna fjögurra barna sem slösuðust. Tvö börn handleggsbrotnuðu og eitt barn hlaut brot á herðablaði í slysinu. Eitt barnanna, sex ára stúlka, slasaðist alvarlega. Hún varð fyrir miklum heilaáverka sem gerði það að verkum að hún þarf að læra flest, ef ekki allt, upp á nýtt.