Vandræði Aftureldingar héldu áfram, liðið hefur aðeins unnið einn leik á tímabilinu en sá sigur kom í annarri umferð gegn Stjörnunni. ÍR liðið var léttleikandi og með örugg tök á leiknum en misstu forystuna aðeins niður undir lokin. Níu stigum munaði milli liðanna þegar fimm mínútur voru eftir, Afturelding átti frábæran endasprett en sá sprettur kom of seint. Lokatölur 20-24 ÍR í vil.
Karen Tinna Demiam varð markahæst í leiknum með 8 mörk fyrir ÍR, hún þurfti þó heil 18 skot til að ná þeim árangri. Sum þeirra rötuðu ekki á markið en mörg skot sem gerðu það voru varin af Sögu Sif Gísladóttir, markverði Aftureldingar, sem varði 13 skot í leiknum.
ÍBV tók svo á móti Þór/KA í seinni leik dagsins. Svipaða sögu er að segja þeim leik, sigurinn var aldrei í hættu fyrir Eyjastelpur sem unnu að endingu 25-16. Marta Wawrzykowska fór mikinn í marki ÍBV og varði 13 skot, eða helming allra skota sem komu á markið. Sunna Jónsdóttir sá svo um markaskorunina með 8 mörk úr 8 skotum.
Afturelding situr sem áður segir á botni deildarinnar með aðeins tvö stig. Þór/KA er í sjötta sætinu með ÍR og ÍBV í 4. og 5. sætunum fyrir ofan.