Innlent

Margir leitað skjóls í fjöldahjálparstöðvum

Frá fjöldahjálparstöðinni í Kórnum í Kópavogi.
Frá fjöldahjálparstöðinni í Kórnum í Kópavogi. Vísir/TelmaT

Margir hafa leitað skjóls í þremur fjöldahjálparmiðstöðvum sem opnaðar voru vegna rýmingar í Grindavík, á Selfossi, Reykjanesbæ og í Kópavogi.

Um miðnætti voru sjálfboðaliðar Rauða krossins í óða önn að setja upp svefnbedda í Kórnum í Kópavogi, en almenningur og fyrirtæki hafa lagt til ýmsar nauðsynjar, til að mynda mat, drykki, sængur, kodda og teppi. Þá hafa búr fyrir gæludýr verið lánuð til fólks sem hefur tekið dýrin sín með sér. 

Gylfi Þór Þorsteinsson fjöldhjálparstjóri segir um 50 manns hafa komið í Kórinn, von sé á fleirum þótt óljóst sé hve mörgum, það má þó búast við töluverðum fjölda. Hann segir að um blandaðan hóp sé að ræða, Íslendinga og aðflutta. Einnig sé nokkuð um börn í hópnum, sem Gylfi Þór segir að séu skelkuð, þreytt og kvíðin. Og fólki sé brugðið. 

Rauði krossinn reynir að veita eins mikla aðstoð og hægt er, húsaskjól, sálrænan stuðning og gerir það sem þarf, að sögn Gylfa Þórs. Undirbúningur snýr að því að taka á móti mörg hundruð manns. Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá og heyra hvernig fer um Grindvíkinga í Kórnum og hvaða þjónusta þeim stendur til boða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×