Þetta kemur fram í færslu sem Magnús Már Einarsson birti á Facebook fyrr í kvöld en drengurinn sem heitir Sameer hefur verið í fóstri hjá honum og konu hans Önnu Guðrúnu Ingadóttur síðan í júní á þessu ári.
Fjölskyldan enn á Gasasvæðinu
„Þar verða þeir tveir, foreldralausir, á götunni við ömurlegar aðstæður. Á Íslandi stunda þeir skóla, æfa fótbolta með Aftureldingu og líkar frábærlega enda þurfa þeir ekki að óttast sprengingar á hverjum einasta klukkutíma,“ skrifar Magnús í færsluna.
Hann segir jafnframt að foreldrar Sameers og systkini búi enn þá á Gasasvæðinu og að Sameer bíði kvíðinn á hverjum degi eftir fréttum af afdrifum fjölskyldunnar. Heimili fjölskyldunnar hans sé þegar rústir einar og fjölskyldan sé nú á vergangi í rústum heimaborgarinnar.
„Ótrúlega ómanneskjulegt“
„Það að ætla að senda þá í burtu frá Íslandi þegar þjóðarmorð eru í gangi í heimalandinu er ótrúlega ómanneskjulegt og eitthvað sem hlýtur að vera hægt að koma í veg fyrir,“ segir Magnús.
Hann hvetur Alþingi til að veita þeim fáu Palestínumönnum sem staddir eru á Íslandi alþjóðlega vernd af mannúðarástæðum. Sameer og frænda hans Yazan bíði vanræksla á götum Aþenuborgar ef ekkert verði gert í málinu.
Magnús spyr hvers vegna ekki sé hægt að veita þeim örfáu Palestínumönnum sem eru búsettir á Íslandi vernd. Fordæmi séu fyrir slíku fyrir fólk frá Afganistan og Úkraínu.
„Boltinn er hjá ykkur alþingismenn. Verið hugrakkir!“ segir hann að lokum.