Skoðun

Aukin skatt­heimta á í­búa þegar síst skyldi

Helga Jóhanna Oddsdóttir skrifar

Fyrir liggur að hækkun fasteignamats íbúðahúsnæðis í Reykjanesbæ nemur 17,5% á milli áranna 2023 og 2024 sem er töluvert umfram verðlagshækkanir. Þessi hækkun þýðir auknar tekjur fyrir Reykjanesbæ og um leið auknar álögur á íbúa, þegar síst skyldi. 

Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, lögðum fram tillögu á fundi bæjarstjórnar þann 5.12. sl. þar sem við lögðum áherslu á að álagningar prósentan yrði lækkuð á móti hækkun fasteignamats, til að lágmarka áhrifin á íbúa sem hafa tekist á við hverja vaxtahækkunina á fætur annarri undanfarið ár. 

Í tillögunni fólst, að vanáætluð tekjuáætlun sveitarfélagsins yrði hækkuð og að álagður fasteignaskattur 2024 lækkaður í heild um 170 milljónir króna, sem er aðeins brot af þeirri vanáætlun tekna sem tíðkast hefur í tíð núverandi meirihluta Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar Leiðar. Níu mánaða uppgjör Reykjanesbæjar 2023 sýnir að tekjur sveitarfélagsins eru 3 milljörðum yfir áætlun. Á árinu 2022 voru tekjur 3,4 milljörðum yfir áætlun og árið 2021 voru tekjur 2,4 milljörðum yfir áætlun. Ofangreindri tillögu okkar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var hafnað og mega íbúar Reykjanesbæjar því eiga von á aukinni skattheimtu af hálfu sveitarfélagsins á árinu 2024. 

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×