Prins dvelur nú í góðu yfirlæti á Kattakaffihúsinu í Bergstaðastræti í Reykjavík. Hann var reyndar frekar feiminn við að láta mynda sig enda komin í nýjar aðstæður og enn að jafna sig eftir að hafa verið týndur í öll þessi ár. En hver er saga hans?
„Hann var upphaflega í eigu frænda míns, hann tók hann að sér sumarið 2010 og tæpu ári seinna sleppur hann út og týnist. Hann leitaði að honum út um allt, hann auglýsti og gekk um hverfið og aldrei fannst Prins og svo fær hann hringingu á mánudaginn þar sem honum er tilkynnt að Prins sé fundinn í Húsafelli eftir að hafa týnst í Hlíðunum í Reykjavík fyrir 12 árum,” segir Ragnheiður Birgisdóttir, umsjónarmaður Prins þessa dagana og eigandi Kattakaffihússins.
Ragnheiður segir að vitað sé að Prins hafi verið búin að sniglast í kringum iðnaðarmenn í Húsafelli við byggingaframkvæmdir þar en nú þegar því verki er lokið höfðu mennirnir áhyggjur af því hvað yrði um Prins og fóru því með hann til dýralæknis í Borgarnesi til að láta lesa úr örmerki hans og þá kom í ljós að kötturinn hefur verið skráður týndur í öll þessi ár. Dýralæknirinn lét þá eigandann vita að Prins væri fundinn en sá á býr í Þýskalandi.
„Þetta er ótrúleg saga, alveg ótrúleg saga. Það hefur allavega greinilega einhver verið með hann af því að hann lítur vel út, hann er kelinn, hann er með fallegan felld, þannig að einhvers staðar hefur hann verið,” segir Ragnheiður og bætir við.
„Þetta er heldur betur falleg jólagjöf, gæti ekki verið betri jólagjöf fyrir frænda minn að vita að Prins er á lífi eftir öll þessi ár og að hann geti fengið að hitta hann og vonandi verða bara fagnaðarfundir þegar hann kemur til landsins. Ég vildi að Prins gæti sagt okkur hvar hann hafi verið öll þessi á en það getur hann ekki.”