Eins og fram hefur komið rýmdu viðbragsðaðilar Grindavíkurbæ á sjöunda tímanum í kvöld. Var það gert vegna uppfærðs hættumatskort Veðurstofunnar sem gerir ráð fyrir því að nýjar sprungur geti opnast með skömmum fyrirvara.
Ólafur Örvar Ólafsson, varðstjóri lögreglunnar í Grindavík, ræddi við fréttastofu í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2, rétt áður en viðbragsaðilar tóku ákvörðun um að rýma bæinn.
Þar kom meðal annars fram að meðal verkefna lögreglu í dag hefði verið að aðstoða fjölmiðla á gossvæðinu og greina vegslóða fyrir viðbragðsaðila.
Þið vitið náttúrulega ekkert um framhaldið, hvort fólki verði hleypt hérna inn, heyrum það að viðgerðarfólki verði hleypt inn á morgun?
„Við erum sífellt að endurmeta stöðuna. Það getur breyst á núll einni. Maður veit aldrei. Okkar sérfræðingar eru alltaf að endurmeta stöðuna.“
Ólafur segist skynja létti í mörgum bæjarbúa yfir staðsetningu gossins. Fyrst það hafi á annað borð komið sé ágætt að það sé ekki nær Grindavík en það er.
Þið verðið með vakt hérna allan sólarhringinn og kannski næstu sólarhringa?
„Ég geri ráð fyrir því. Vettvangsstjórn er hérna og aðgerðarstjórn er með í Keflavík, þannig við erum alltaf með mannskap hérna, eða í og við bæinn.“