Samkvæmt upplýsingum frá Sigrúnu Ingu Ævarsdóttur, samskiptastjóra HS Veitna, hefjast aðgerðir um hádegi. Vegna þess hve hættulegar aðstæður eru fylgir sérsveit starfsmönnum HS Veitna en lágmarksmönnum er í verkefnið til að tryggja öryggi.
Aðgerðirnar miða að því koma innviðum sem eru heilir aftur í virkni. Samkvæmt tilkynningu HS Veitna er ekki er óhætt að ráðast í viðgerðir á veitukerfunum í bænum á næstunni. Því munu ekki öll hús í Grindavík fá heitt vatn og rafmagn í þessum aðgerðum.
Heitt vatn á vestari hluta í gær
Greint var frá því í morgun að HS Veitur hefðu í samvinnu við almannavarnir komið heitu vatni á vestari hluta bæjarins. Nú er unnið að því að fá lykla hjá eigendum eigna þar svo viðbragðsaðilar geti kannað stöðuna í húsunum.
Í tilkynningu HS Veitna segir að gamla heitavatnslögnin inn í Grindavík sé mikið skemmd og að aðgerðir í gær hafi miðað að því að kanna hvort hægt væri að nýta nýja lögn sem var búið að leggja í jörðu en fór einnig undir hraunflæðið. Þar hafi tekist vel til en vegna skemmda á dreifikerfi í austari hluta bæjarins hafi ekki verið hægt að koma upp hita þar. En reynt verður að laga það
„Vel tókst til við að nýta nýju heitavatnslögnina til að koma heitu vatni til Grindavíkur og er heitt vatn nú komið á vesturhluta bæjarins að mestu, en vegna skemmda á dreifikerfi hitaveitu í austari hluta bæjarins var ekki hægt að koma upp hita þar.“