Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar segir stöðuna í Grindavík hafa gerbreyst um helgina.
„Ég skil það bara mjög vel að það skuli vera núna að vakna í huga sífellt fleiri Grindvíkinga þessar spurningar og efasemdir um hvort byggjandi þarna áfram með fjölskyldum. Með tilliti til öryggismála svo dæmi sé tekið. Hvort fólk hafi það í sér að flytja þangað aftur inn í óvissuna,“ sagði Hanna Katrín. Það væri alger samstaða um það á Alþingi að gera ætti allt sem hægt væri til að hjálpa Grindvíkingum.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata tók undir þetta.
„Síðan höfum við kannski skiptar skoðanir á útfærslunni en erum sammála um að vinna hana. Svo er ákveðinn meirihluti á þinginu og ég held að þau hafi kannski leyft sér þann lúxus að vona bara hið besta. Mér finnst það einhvern veginn áberandi. Miðað við að fyrir tveimur mánuðum á þessi rýming sér stað, svo við tölum ekki þessi tvö ár á undan, þá liggur strax ljóst fyrir þar að ein sviðsmyndin er að það þurfi í lengri tíma að rýma þennan bæ,” sagði Þórhildur Sunna.

Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar minnti einnig á það andlega álag sem Grindvíkingar væru undir og huga þyrfti að.
„Það getur verið mjög skynsamlegt og við styðjum að það sé skoðað að kaupa upp eignir þeirra sem það vilja. Það þarf hins vegar auðvitað að útfæra það mjög vel. Það þarf að skoða hvaða áhrif það hefur á hagkerfið, hvaða áhrif það hefur á húsnæðismál almennt í landinu og miða aðgerðirnar við það. En skilaboðin eiga að vera skilyrðislaust; já, við erum tilbúin til að gera þetta,“ sagði Logi.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins sagði ríkissjóð vel geta staðið undir aðstoð við Grindvíkinga.
Þú telur eins og þau kannski að þetta sé leið sem stjónvöld eigi að bjóða upp á?
„Já alveg skilyrðislaust og ég tek undir með Loga að það er mjög mikið andlegt niðurbrot hjá fjölskyldunum í Grindavík. Maður getur engan veginn sett sig í þessi spor. Maður horfði bara lamaður á hlutina gerast á sunnudaginn og var að ímynda sér, Guð minn góður, þarna var hraunið að flæða yfir eignir fólks. Það var að hofa á heimilin sín brenna í beinni útsendingu. Maður getur engan veginn sett sig í þessi spor,” sagði Inga.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telur einsýnt að ríkið eigi að leysa þá Grindvíkinga sem það vilji undan húseignum þeirra.
„Það er ákveðinn vendipunktur núna. Það er að renna upp fyrir fólki að það kemst ekki til baka á næstunni. Ekki um fyrirsjáanlega framtíð. Þá auðvitað endurmeta menn stöðuna. En það sem flestir ef ekki allir segja er að þeir vilja samt varðveita samfélagið. Þá getum við þurft að velta fyrir okkur hlutum á borð við að byggja upp nýja Grindavík. Hafa tvær Grindavíkur,” sagði Sigmundur Davíð.
Pallborðið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.