Handbolti

„Fannst við eiga skilið að vinna þennan leik ef ég á að vera hrein­skilinn“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísli grýtir knettinum fram.
Viktor Gísli grýtir knettinum fram. Vísir/Vilhelm

„Mjög svekktur, fannst við eiga skilið að vinna þennan leik ef ég á að vera hrein­skilinn. Spiluðum góða vörn, fórum með stór færi en fannst við spila vel,“ sagði markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson eftir súrt tap Íslands gegn Þýskalandi á EM í handbolta.

Ísland og Þýskaland voru stigalaus fyrir leik dagsins. Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar eru á heimavelli og því var smekkfull höll í Köln sem tók á móti strákunum okkar. Eftir einkar súrt tap gegn Ungverjalandi þá sýndi íslenska liðið sitt rétta andlit á löngum köflum. Varnarleikurinn var frábær en því miður var færanýtingin af vítalínunni og úr hornunum einfaldlega ekki til staðar, því fór sem fór.

„Vorum að spila flotta og mjög stabíla vörn allan leikinn, sem er góðs merki. Litlu hlutirnir voru hins vegar ekki að falla með okkur í dag. Mjög svekkjandi.“

Viktor Gísli gaf lítið fyrir að Andreas Wolff, markvörður Þjóðverja, hefði átt stórleik. Hann var spurður hvernig það væri að vera jafnoki hans í leik sem þessum.

„Stórleik? Þetta eru bara einhver 12 skot, þar af nokkur víti,“ sagði markvörður Íslands en Wolff var valinn maður leiksins af Handknattleikssambandi Evrópu.

„Erum með rosalega gott lið. Það hafa allir í liðinu bullandi trú á þessu verkefni og það er enn frábær tilfinning inn í hópnum. Erum búnir að vera óheppnir en sýndum okkar rétta andlit í dag. Eigum að vinna svona lið, fannst við spila betur,“ sagði Viktor Gísli að lokum.

Klippa: Viðtal við Viktor Gísla eftir Þýskalandsleik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×