Handbolti

„Þá endar þetta á fal­legum stað“

Sindri Sverrisson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson er hérna til að spila, á EM í Þýskalandi. Hann fór illa með vítaskyttu Þjóðverja, Juri Knorr, í fyrrakvöld.
Björgvin Páll Gústavsson er hérna til að spila, á EM í Þýskalandi. Hann fór illa með vítaskyttu Þjóðverja, Juri Knorr, í fyrrakvöld. VÍSIR/VILHELM

„Það venst voðalega illa að tapa landsleik,“ segir Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður sem hefur fulla trú á því að Ísland geti unnið Frakkland á EM í handbolta í dag.

Íslenska liðið átti sinn besta leik á mótinu til þessa gegn Þjóðverjum í fyrrakvöld en varð að lokum að sætta sig við naumt tap.

„Þetta var góður leikur, að mestu leyti. Við spiluðum fantagóðan leik bæði varnarlega og sóknarlega. Við gáfum þeim alvöru leik, fyrir framan fullt hús Þjóðverja. Það er ekkert sjálfgefið. Þeim mun sárara er að fara á koddann og vita að smáatriðin klikkuðu,“ sagði Björgvin á hóteli landsliðsins í gær. 

Klippa: Björgvin segir leikmenn hafa komist út úr skelinni

Hvaða skilaboð sendir Björgvin til yngri leikmanna eftir svona leik?

„Ég þykist nú alltaf vera með svörin og vita allt, en ég sagði við þá [í fyrradag] að ég veit ekki neitt. Ég veit ekki hvað við eigum að gera við þetta. Við erum að gefa allt í þetta. Líf og sál. Og ég veit að ef við höldum svona áfram þá endar þetta á fallegum stað,“ sagði Björgvin, ánægður með það sem íslenska liðið sýndi gegn Þjóðverjum:

„Ég held að þetta hafi verið það sem við þurftum, spilamennskulega séð. Við spiluðum gríðarlega vel, flottan handbolta, og tökum það með okkur. Líka það að vera komnir út úr skelinni. Svo eru það gömlu góðu dauðafærin og það er hver og einn að vinna í því. Allir að taka ábyrgð á því hjá sjálfum sér. Auðvitað er það sorglegt að í hvert skipti þá stígur nýr markvörður upp, en það er eðlilegt að klúðra nokkrum skotum á Andi Wolff sem er einn af betri markvörðum heims.“

Leikmenn þurfi allir að taka ábyrgð

Slæmt gengi bitnar ekki á liðsandanum hjá strákunum okkar að sögn Björgvins:

„Ef það á einhvern tímann vel við að lið vinni saman og tapi saman þá er það hérna. Ég er búinn að vera í þessu liði í dágóðan tíma og þessi kjarni snýst aldrei hver gegn öðrum. Það er aldrei bent á hinn eða þennan, menn benda bara á sjálfan sig. Við þurfum allir að taka ábyrgð, innan vallar og utan, og þá hlýtur þetta að snúast með okkur.“

Næsti leikur Íslands á EM er gegn Frakklandi í dag klukkan 14:30 að íslenskum tíma. Öflugt teymi Vísis og Stöðvar 2 er í Þýskalandi og fjallar um mótið í máli og myndum.


Tengdar fréttir

Tók lítið eftir tuttugu þúsund Þjóðverjum

„Nóttin var stutt. Ég svaf alla vega ekki rosalega mikið. En hún var bara ágæt,“ sagði landsliðsmaðurinn Elliði Snær Viðarsson daginn eftir tapið sára gegn Þýskalandi á EM í handbolta. Hann villi meiri læti í Lanxess-höllinni í Köln.

EM í dag: Þetta var gjörsamlega óþolandi

Þeir Henry Birgir Gunnarsson og Sindri Sverrisson voru hundsvekktir eftir tapið gegn Þjóðverjum í gær og þeir renna yfir vonbrigðin í þætti dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×