Innlent

Komast ekki heim í dag og mögu­lega ekki um helgina

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Grindavík er í vetrarbúningi en veðrið er á meðal ástæðna fyrir því að Grindvíkingar komast ekki heim til að sækja eigur sínar í dag.
Grindavík er í vetrarbúningi en veðrið er á meðal ástæðna fyrir því að Grindvíkingar komast ekki heim til að sækja eigur sínar í dag. Vísir/Arnar Halldórsson

Ljóst er að Grindvíkingar fá ekki að fara heim til að sækja eigur sínar í dag og Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri Almannavarna er heldur ekki bjartsýn á að þeir muni geta það heldur um helgina.

Hún segir í samtali við fréttastofu að það síðasta sem almannavarnir vilji sé að fólk bíði í löngum röðum við lokunarpósta og komist svo ekki heim. Málið snúist um utanumhald, skipulag og öryggi bæjarbúa. Þá hefur slæmt veður einnig haft áhrif að sögn Hjördísar. Hún var spurð hvort bæjarbúar fái að komast í bæinn til að huga að eigum sínum bráðlega.

„Bráðlega er kannski þarna lykilorð, hvenær nákvæmlega er ekki alveg á hreinu. Það er svo margt sem kemur inn í þetta, ekki síst veður og aðstæður á staðnum. Þrátt fyrir að við vitum að Grindvíkingar séu vanir vondum veðrum og allt það, þá er bara svo margt annað sem taka þarf með inn í reikninginn að þessu sinni en við erum að skipuleggja þetta þannig að það fari ekki á milli mála að þegar þetta verður hægt þá munum við koma skilaboðum mjög skýrt til Grindvíkinga,“ segir Hjördís.


Tengdar fréttir

Opna þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga í Reykjanesbæ

Ríkislögreglustjóri, í samstarfi við Rauða krossinn og Grindavíkurbæ, mun opna þjónustumiðstöð á morgun, þriðjudaginn 23. janúar klukkan 14. Þjónustumiðstöðin verður til húsa í húsi Rauða krossins að Smiðjuvöllum 9 í Reykjanesbæ. Opnunartími verður á mánudögum, þriðjudögum og föstudögum milli klukkan 14 og 17.

Mikilvægt að íbúar eigi áfram eignir í Grindavík

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að bæjaryfirvöldum hugnist aðgerðir ríkisstjórnarinnar vel. Mikilvægt sé að íbúar haldi eignatengslum við Grindavík og geti snúið til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×