Innlent

Mikil­vægt að undir­búa sig vel fyrir stóra skjálftann

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Kristín Jónsdóttir er fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands.
Kristín Jónsdóttir er fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands. Vísir/Vilhelm

Búast má við jarðskjálftum að stærðinni um eða yfir sex á höfuðborgarsvæðinu. Fagstjóri náttúruvár segir mikilvægt að vera vel undirbúinn þegar að því kemur. 

Jarðskjálftahrinur sem mældust suðaustur af Heiðmörk síðastliðna helgi má rekja til flekahreyfinga á Hvalhnúksmisgenginu. Á því svæði eiga stórir skjálftar, um það bil sex að stærð, sér stað á um það bil 50 ára fresti.

Sá síðasti var árið 1968 og þar áður árið 1929. Því telja vísindamenn að kominn sé tími á skjálfta af þessari stærðargráðu, sem myndi sennilega finnast víða um land en mest á höfuðborgarsvæðinu.

Undirbúningur mikilvægur

„Þetta er vissulega eitthvað sem við erum búin að vera tala um og höfum talað um í langan tíma,“ sagði Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands, í Pallborðinu á Vísi í dag.

„Í skjálftanum árið 1968 mynduðust sprungur til dæmis í Langholtsskóla. Það verður að búast við því að það verði sprungur einhversstaðar ef stór skjálfti ríður yfir.“

Því sé mikilvægt að nota tímann nú áður en skjálftinn kemur til að undirbúa sig.

Hvað getum við gert í okkar nærumhverfi, og hvað ætlum við að gera í skjálftanum?

Þá segir Kristín að hugsanlega verði erfitt að ná í fólk, allir muni fara beint í símann og á netið þegar skjálftinn ríði yfir.

„Það er ágætt að nota friðartímana til að fara yfir það sem getur gerst og undirbúa sig.“

Slökkvilið bendir á leiðbeiningar

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vakti i dag athygli á leiðbeiningum um varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta.

„Það skiptir máli að vera undirbúin fyrir skjálftann þegar hann kemur,“ segir í færslunni.

Hér má sjá myndskeið úr Pallborðinu þar sem Kristín fjallar um jarðskjálftahættuna:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×