Handbolti

Óðinn fær sam­keppni um mark ársins frá franskri konu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði hér markið frábæra á móti Frökkum.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði hér markið frábæra á móti Frökkum. Vísir/Vilhelm

Franska handboltakonan Lucie Granier skoraði magnað mark í Meistaradeildinni um helgina og mark sem fékk um leið samfélagsmiðla til að rifja upp frábært mark íslenska landsliðsmannsins Óðins Þór Ríkharðssonar frá því á EM í Þýskalandi.

Óðinn skoraði frábært mark á móti franska landsliðinu á EM þegar hann tók við sirkussendingu frá Gísla Þorgeiri Kristjánssyni og skoraði með því að skjóta boltanum aftur fyrir bak áður en hann lenti. Markið var að mati flestra flottasta markið á EM karla í ár.

Það er eins og Óðinn hafi með þessu líka opnað fyrir hugmyndaflug annarra leikmanna eins og Granier.

Granier er 24 ára hægri hornamaður og varð heimsmeistari með franska landsliðinu í desember síðastliðnum.

Hún skoraði undramarkið sitt um helgina í Meistaradeildinni. Hún fékk þá sirkussendingu úr hinu horninu, stökk inn í teig og skaut boltanum aftur fyrir bak og fram hjá markverði danska liðsins. Markvörðurinn áttaði sig engan veginn á því sem var að gerast.

Þetta var eitt af þremur mörkum Granier í fimm marka sigri Metz á Esbjerg.

Hér fyrir neðan má sjá bæði þessi frábæru mörk frá þessum hæfileikaríku hægri hornamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×