Skoðun

Opið bréf til Kastljóss vegna um­fjöllunar um hugbirtandi efni í fyrra­kvöld

Lilja Sif Þorsteinsdóttir skrifar

Lilja heiti ég og er sálfræðingur. Ég hef síðustu ár einbeitt mér að skaðaminnkun og skaðaminnkandi hugmyndafræði, bæði í samfélaginu og í meðferð.

Ég er ein af þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem fékk mikinn áhuga á efnunum þegar þau byrjuðu að koma fram á sjónarsviðið. Ég hef fylgst náið með rannsóknum á efnunum ásamt því að sækja mér eins djúpa og víða þekkingu og ég hef getað og frá mörgum sjónarhornum en innan lagalegs ramma. Ég hef reynt að opna umræðuna hjá mínum kollegum, held úti facebook hópi fyrir heilbrigðisstarfsmenn sem vilja fylgjast með rannsóknum á efnunum, og hef verið dugleg að kalla á aukna fræðslu, bæði til kollega og til almennings.

Ég deili að mörgu leyti áhyggjum Engilberts geðlæknis sem komu fram í Kastljósþætti fyrradagsins. Í þeim samfélögum sem varðveitt hafa efnin hafa þau verið notuð í jafnvel þúsundir ára innan strangs regluverks. Við höfum svo sótt þessi efni og flutt þau inn í okkar menningu, en án þess að taka regluverkið með okkur. Hér höfum við engar hefðir um notkun efnanna. Engan lagaramma. Engar klínískar leiðbeiningar. Enga gæðastaðla fyrir það fólk sem handleikur efnin. Og fullt, fullt af góðhjörtuðu fólki sem fékk sjálft mikið út úr notkun sinni, áttar sig ekki á því hvað það er að handleika og ákveður að aðstoða aðra við notkun efnanna.

Þetta býður upp á vandræði. Og það er það sem við erum byrjuð að sjá. Mikla aukningu innlagna og alvarlegra atvika, sem ég fer ekki varhluta af á minni stofu.

Svo hver er lausnin? Er lausnin að taka fjölmiðlaumfjöllunina í hina áttina og byrja hræðsluáróður? Hverju mun það skila?

Sumar af staðhæfingum Engilberts í Kastljósi fyrradagsins falla hættulega nálægt hræðsluáróðri og ýkjum. Hann nefnir rannsókn þar sem fjórir af hverjum tíu sögðu reynsluna vera erfiðustu reynslu lífs síns, en sleppir því að nefna að 84% þessarra einstaklinga mæltu með reynslunni fyrir aðra þrátt fyrir það. Hann nefnir að einn af hverjum tíu segist hafa verið hættulegur sér eða öðrum, en nefnir ekki að 66-86% sagði reynsluna vera eina af fimm þýðingarmestu upplifun lífs síns, oft ofar en fæðingu fyrsta barns.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er ekki til þess að verja efnin, heldur til þess að vekja athygli á að það er ástæða fyrir því að fólk sækir í þetta. Aðrar ástæður koma líka til; einhliða umfjöllun í blöðum undanfarin ár, mölbrotið heilbrigðiskerfi og faraldur vanlíðunar. En tilfinning mín er sú að stærsta ástæðan er orðið sem berst á milli manna. Fólk sér líðan vina og vandamanna breytast eftir notkun efnanna og hugsar „ég vil þetta“.

Hræðsluáróður mun ekki breyta því. Það eina sem hann gerir er að koma fólki sem notar efnin lengra út á jaðarinn, þar sem hætturnar verða meiri og hjálpin lengra í burtu. Hræðsluáróður skilar eingöngu því að fólk sem áður var á móti efnunum eru nú enn meira á móti þeim, og það fólk sem áður var hrifið af efnunum treystir ekki sínum fagaðilum fyrir notkun sinni, þorir ekki að leita sér hjálpar ef eitthvað bregður út af, og veit ekki hvert það á að leita sér réttra upplýsinga til að tryggja öryggi sitt.

Ég held úti skaðaminnkandi fræðslunámskeiðum um efnin, ætlað fólki sem hefur að eigin frumkvæði ákveðið að fara þessa leið. Á námskeiðunum fer ég yfir hvað efnin eru og hvernig þau virka, hverjar áhættur og mögulegur ávinningur sé, hvað þurfi að hafa í huga áður en farið er út í þetta, hvað þurfi að passa þegar valin er yfirsetumanneskja og sálfélagsleg fræðsla um undirbúning og eftirvinnslu.

Þessi fræðsla er í boði svo fólk hendi sér ekki út í eitthvað að algjörlega óathuguðu máli. Það sem við þurfum er FRÆÐSLA, ekki hræðsla. Okkur miðar aldrei neitt áfram ef við stýrum skipinu ekki frá þessari svarthvítu umræðu. Á þessum tímapunkti hefur það aldrei verið jafn nauðsynlegt.

Höfundur er sálfræðingur, hefur lokið námi í hugbirtandi fræðum og heldur úti skaðaminnkandi fræðslu- og stuðningsnámskeiðum fyrir fólk sem hyggur á notkun þeirra.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×