Meginvextir Seðlabankans verða áfram 9,5 prósent samkvæmt ákvörðun peningastefnunefndar í morgun. Verðbólga hefur hins vegar minnkað hraðar en bankinn gerði ráð fyrir og er nú komin niður í 6,7 prósent. Það þýðir að raunvextir hafa hækkað um eitt prósentustig frá því í desember.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir aðgerðir Seðlabankans gegn verðbólgunni að ganga upp.
„Við tókum þá ákvörðun að hækka vexti verulega á fyrri hluta ársins í fyrra. Það er að skila sér núna með því aðhagkerfið er að hægja á sér. Þannig að þetta er allt í rétta átt,“ sagði Ásgeir eftir að peningastefnunefnd kynnti vaxtaákvörðun sína í morgun. Verðbólga minnkaði hraðar en búist var við, það væri að hægja á eftirspurn og viðskiptajöfnuður færi batnandi.
„En það eru ansi mörg óvissumál í gangi. Ég get nefnt kjarasamningana sérstaklega sem nú er verið að ræða. Líka auðvitað aðgerðir vegna stöðunnar í Grindavík,“ segir seðlabankastjóri. En búist er við frumvarpi stjórnvalda vegna uppkaupa á húsnæði Grindvíkinga fyrir lok þessarar viku.
Seðlabankastjóri segir eðlilegt að heimilin væru farin að halda að sér höndum í neyslu og aukið sparnað, enda væru raunvextir orðnir háir. Íslensk heimili væru hagsýn en Seðlabankinn hefði einnig hert skilyrði til lántöku, sem hefði sín áhrif.
Það er stutt í næsta vaxtaákvörðunardag Seðlabankans hinn 20. mars. Almennt er vonast til að þá muni niðurstaða kjarasamninga á bæði almenna- og opinbera markaðnum liggja fyrir sem og aðgerðir stjórnvalda vegna Grindavíkur.
Seðlabankinn spáir því að meginvextir hans verði komnir niður í 4,1 prósent í lok þessa árs og telur Ásgeir góðar líkur á að það takist.
„Þannig að við bara bíðum og sjáum. Hlutirnir eru að ganga réttan veg og við munum bregðast við þegar við teljum að tíminn sé kominn.“
Bæði til lækkunar og hækkunar?
„Já, auðvitað já,“ sagði Ásgeir Jónsson.