Innlent

Stað­setning gossins ekki jafn ógn­vekjandi og síðast

Lovísa Arnardóttir skrifar
Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs Grindavíkurbæjar og lögreglumaður, segir það mikinn létti að gosið sé fjær bænum en þegar gaus í janúar.
Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs Grindavíkurbæjar og lögreglumaður, segir það mikinn létti að gosið sé fjær bænum en þegar gaus í janúar.

Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs í Grindavík, frétti af eldgosinu í morgun frá syni sínum sem vinnur á Keflavíkurflugvelli.

„Sonur minn sjá bjarmann og hringdi í mig.“

Hvernig leið þér þá?

„Mér líður betur eftir að ég fékk að vita staðsetningu. Það er alltaf ákveðið óöryggi fyrst að átta sig á hvar þetta er. En við bjuggumst alveg við þessu. Þetta er búið að gerast það oft að maður hoppar ekki upp en staðsetningin skiptir öllu máli.“

Spurður um viðbrögð af hálfu bæjarins segir hann bæinn alveg tóman en að viðbragðsaðilar séu við lokunarpósta. En að hann sé rýmdur við þessar aðstæður.

Hjálmar á von á því að bænum verði lokað á meðan þessu stendur, allavega á meðan viðbragðsaðilar og sérfræðingar átta sig á stöðunni.

„Það er eðlilegt held ég og fólk skilur það.“

Bærinn rýmdur

Síðustu daga hefur farið fram umfangsmikil verðmætabjörgun í bænum. Hjálmar segir alls ekki alla hafa tekið sitt dót. Hann sjálfur hafi sem dæmi ekki tekið einn stól og ætli ekki að gera það.

„Það er heilmikið dót og sumir sem ætla ekkert að taka strax. Það er voðalega misjafnt. Ég hef ekki tekið einn stól og ætla ekkert að taka. Ég bý syðst í bænum og verðum að sjá hvernig móður náttúra fer með okkur.“

Hjálmar segir staðsetninguna mikinn létti. „Síðasta gos var frekar ógnvekjandi en þetta er á betra stað.“

Hjálmar starfar sem löggæslumaður en er í leyfi frá þeim störfum vegna anna í sveitarstjórnarmálum. Hann á von á því að fara í ráðhúsið í dag til að taka stöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×