Skoðun

Stökk­pallur fyrir ís­lenskar lausnir

Nótt Thorberg skrifar

Tvíhliða samstarf Bandaríkjanna og Íslands á sviði orku- og loftslagsmála markar nýjan kafla í útflutningi íslenskra loftslagslausna og áframhaldandi nýsköpun hér á landi. Það eru tíðindi þegar orkumálaráðherra Bandaríkjanna lýsir því yfir að þær loftslagslausnir, þekking og reynsla sem Íslendingar búa yfir sé mikilvæg fyrir orkuskipti Bandaríkjanna og þá gríðarstóru grænu umbreytingu sem þörf er á í heiminum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Jennifer M. Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, ýttu samstarfi landanna formlega úr vör síðastliðinn föstudag. Með því eru Bandaríkjamenn að setja jarðvarma og íslenskar lausnir á sviði kolefnisföngunar, -förgunar og -nýtingar á heimskortið, og efna til stórsóknar í samstarfi og þekkingarmiðlun landanna á sviði rannsókna, þróunar og innleiðingar á árangursríkum loftslagslausnum.

Samstarfið mun án efa greiða götu íslenskra fyrirtækja inn á Bandaríkjamarkað og stórauka tækifæri Íslendinga til að afla styrkja, fjárfestingar, og annars nauðsynlegs stuðnings fyrir orku- og loftslagsverkefni tengd Bandaríkjunum. Þá felur samstarfið einnig í sér að Ísland styðji við önnur verkefni á alþjóðlegum vettvangi sem Bandaríkin koma að, meðal annars í Austur-Evrópu og víðar.

Einstök staða Íslendinga á sviði nýtingar endurnýjanlegrar orku og tengdri nýsköpun er sjóðheit söluvara í baráttunni við loftslagsvána og Ísland stendur framarlega á þessu sviði. Íslenskar lausnir þykja eftirsóknarverðar en með samstarfinu verður til eins konar hraðall fyrir þau verkefni og tækifæri sem ríkin tvö geta unnið að á sviði orku- og loftslagsmála.

Auk þess má ætla að samstarfið muni laða til Íslands ný verkefni og fjárfestingar á sviði sjálfbærra loftslagslausna. Þar horfa Bandaríkjamenn meðal annars til samstarfs um þróun vetnis- og rafeldsneytislausna auk annarra tækifæra, svo sem á sviði rannsókna á djúpborunum í kviku sem íslensk orkufyrirtæki hafa þegar lagt grunninn að.

Grænvangur fagnar samstarfinu og framsýni stjórnvalda í að taka þetta mikilvæga skref sem mun auka enn frekar vitund heimsbyggðarinnar um tækifærin, lausnirnar og hugvitið sem Ísland hefur upp á að bjóða. Tækifærin eru fjölmörg og nú er það sameiginlegt verkefni stjórnvalda og atvinnulífs að nýta þennan stökkpall til að láta verkin tala. Fyrir Ísland, Bandaríkin og heimsbyggðina alla.

Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda í loftslagsmálum og grænum lausnum.

Höfundur er forstöðumaður Grænvangs.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×