Í dómi Hæstaréttar, sem var skipaður öllum sjö dómurum réttarins, segir að konan hafi höfðað mál á hendur ríkinu og krafist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála, þar sem staðfest var niðurstaða fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna í fæðingarorlofi til hennar.
Hún hafi talið að úrskurðurinn færi í bága við EES-samninginn. Hún hefði verið búsett og starfandi í Danmörku á tólf mánaða viðmiðunartímabili sem lauk sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Þar sem konan hefði ekki haft neinar tekjur hér á landi á tímabilinu hafi henni verið ákvarðaðar lágmarksgreiðslur samkvæmt þágildandi lögum um fæðingar og foreldraorlof.
Leituðu álits hjá EFTA
Undir rekstri málsins í héraði hafi verið leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins með spurningum um hvort áskilið væri samkvæmt nánar tilgreindum reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu að EES-ríki reikni greiðslur í fæðingarorlofi eftir viðmiðunartekjum út frá heildarlaunum á vinnumarkaði á öllu svæðinu.
Jafnframt hvort það bryti í bága við reglur sem þar gilda að einungis væri tekið tillit til heildarlauna á innlendum vinnumarkaði. Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins hafi sagt að skylda til að koma í veg fyrir að farandlaunþegar yrðu verr settir við það að nýta sér rétt til frjálsrar farar fæli í sér að bætur til þeirra skyldu vera hinar sömu og þær hefðu verið ef launþegi hefði ekki neytt þess réttar. Þar af leiðandi bæri að reikna viðmiðunartekjur launþega, vegna starfstímabils í öðru EES-ríki, út frá áætluðum tekjum launþega í sambærilegri stöðu og með sambærilega starfsreynslu og hæfi og launþegi í því ríki þar sem sótt væri um bæturnar.
Ekki sammála kollegum í Lúxemborg
Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að þótt að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins væru ekki bindandi að íslenskum rétti hefðu þau í réttarframkvæmd verið lögð til grundvallar við skýringu á efni EES-reglna. Að baki því væri sú grundvallarregla EES-samningsins að stuðla að samkvæmni í skýringum á EES-reglum og þar með samræmdri framkvæmd EES-samningsins.
Þrátt fyrir þetta yrði að fallast á það með héraðsdómi að Fæðingarorlofssjóður hefði ekki getað virt að vettugi skýr og afdráttarlaus fyrirmæli laga um fæðingar- og foreldraorlof við ákvörðun um greiðslu úr sjóðnum til konunnar. Því hafi verið staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna ríkið.
Málskostnaður var felldur niður á báðum dómstigum.