Reuters hefur eftir heimildarmönnum að fulltrúarnir lendi í Kaíró í dag, en að fulltrúar Ísraels muni ekki ganga til viðræðna fyrr en þeir fái tæmandi lista af gíslum sem enn eru á lífi.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist á þriðjudaginn vera vongóður um að samkomulag um vopnahlé næðist á mánudaginn, tæpri viku fyrir upphaf Ramadan sunnudaginn 10. mars. Vopnahléið yrði það fyrsta síðan í nóvember.
Talsmaður Bandarískra yfirvalda sagði við Reuters í gær að í samningnum felist sex vikna vopnahlé gegn því að Hamas frelsi þá gísla sem þeir hafa verið með í haldi síðan í október. Hann sagði fulltrúa Ísraels þegar hafa samþykkt boðið í grundvallaratriðum.
Ísraelsk stjórnvöld hafa orðið fyrir auknum þrýstingi á alþjóðavettvangi til þess að létta á loftárásum á Gasaströndina. Samkvæmt opinberum tölum Hamas hafa meira en þrjátíu þúsund manns látist í árásum Ísraelshers frá upphafi stríðs.