Innlent

Palestínu­menn ekki lengur í for­gangi hjá Út­lendinga­stofnun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mikil neyð ríkir á Gasa og hungursneyð blasir við. Þaðan hafa þeir verið að koma sem fengið hafa dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar.
Mikil neyð ríkir á Gasa og hungursneyð blasir við. Þaðan hafa þeir verið að koma sem fengið hafa dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. AP/Fatima Shbair

Umsóknir Palestínumanna um fjölskyldusameiningu njóta ekki lengur forgangs hjá Útlendingastofnun. Ákvörðunin tók gildi í gær í samráði við dómsmálaráðuneytið.

Frá þessu er greint á vef stofnunarinnar.

Þar segir að frá því um miðjan október 2023 hafi umsóknir Palestínumanna um fjölskyldusameiningu notið forgangs en á þeim tíma voru 150 umsóknir óafgreiddar, þar af helmingur eldri en sex mánaða.

Frá þessum tíma hafi 280 dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar verið gefin út; 160 til Palestínumanna og 120 til ríkisborgara annarra ríkja, einkum Sýrlendinga, Venesúelabúa og Sómala.

„Um 20 umsóknir um fjölskyldusameiningu við flóttamenn frá palestínskum ríkisborgurum eru nú í vinnslu hjá Útlendingastofnun en auk þeirra hefur mikill fjöldi umsókna borist frá Palestínumönnum sem ekki falla undir réttinn til fjölskyldusameiningar samkvæmt lögum. Rúmlega 320 ríkisborgarar annarra ríkja bíða eftir afgreiðslu umsókna um fjölskyldusameiningu við flóttamenn, einkum frá Sýrlandi, Sómalíu og Afganistan,“ segir á vef Útlendingastofnunar.

Því hafi sú ákvörðun verið tekin, í samráði við dómsmálaráðuneytið, að falla frá forgangi Palestínumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×