Viðskipti innlent

Grind­víkingar fái sömu kjör og fyrstu kaup­endur

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Eldgosin á Reykjanesi og meðfylgjandi jarðhræringar hafa leikið Grindavík grátt.
Eldgosin á Reykjanesi og meðfylgjandi jarðhræringar hafa leikið Grindavík grátt. Vísir/Björn Steinbekk

Bæjarstjórn Grindavíkur ásamt nokkrum félagasamtökum í bænum fer fram á að Grindvíkingar fái sömu kjör við fasteignakaup líkt og um fyrstu kaupendur væri að ræða.

Þetta kemur fram í svokallaðri samstöðuyfirlýsingu sem bæjarstjórnin, Félag eldri borgara í Grindavík, Verkalýðsfélag Grindavíkur og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur hafa sent frá sér. Þar segir að frekari stuðningur við Grindvíkinga sé nauðsynlegur, staðan sé flestum gríðarlega erfið þegar þeir leita leiða til að koma sér fyrir á fasteignamarkaðnum eftir hamfarirnar sem gengið hafa yfir bæinn.

Í yfirlýsingunni er farið þess á leit við yfirvöld að Grindvíkingar njóti sömu kjara og fyrstu kaupendur og fái helmingsafslátt af stimpilgjöldum vegna fasteignakaupa. Þá er beðið um að heimild verði veitt til nýtingar á séreignasparnaði við kaup á fasteign líkt og heimilt er fyrir fyrstu kaupendur.

Að lokum biðja samstöðuaðilar um að öllum Grindvíkingum verði veitt heimild til að sækja um hlutdeildarlán líkt og fyrstu kaupendur fá í dag.

Á dögunum tilkynnti Seðlabankinn að ákveðið hefði verið að rýmka tímabundið lánþegaskilyrði þeirra einstaklinga sem áttu íbúðarhúsnæði í Grindavík 10. nóvember 2023. Hámark greiðslubyrðar verði 40% af ráðstöfunartekjum og hámark veðsetningarhlutfalls verði 85% fyrir þessa einstaklinga við næstu kaup þeirra á íbúðarhúsnæði, sem eru sömu kjör og bjóðast fyrstu kaupendum. 


Tengdar fréttir

Opnað á sölu húsa í Grindavík

Fólk sem vill selja íbúðarhúsnæði sitt í Grindavík til ríkissjóðs getur nú gert það. Eigendur um níu hundruð íbúða í Grindavík geta nýtt sér úrræði þetta sem fer í gegnum Fasteignafélagið Þórkötlu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×