Handbolti

Tyreek Hill reyndi fyrir sér í hand­bolta: „Vissi ekki hvað þetta var“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tyreek Hill sést hér fara inn úr horninu og reyna að skora hjá danska markinu.
Tyreek Hill sést hér fara inn úr horninu og reyna að skora hjá danska markinu. IHF

Tyreek Hill, einn besti útherji NFL-deildarinnar, mætti á handboltaæfingu í París í vikunni.

Hill var staddur í París við útbreiðslu ameríska fótboltans og mætti á æfingu stórliðsins Paris Saint-Germain.

Alþjóða handboltasambandið sagði frá heimsókninni á miðlum sínum en þar mátti hann sjá tala við Karabatic bræðurna. Á einni myndinni sést Tryeek taka sér harpix úr dollu sem Luka Karabatic heldur á.

Á annarri sést kappinn síðan fara inn úr hægra horninu og skjóta á markið en hann er örvhentur.

Hill spilar með Miami Dolphins liðinu og greip flestar snertimarkssendingar og sendingar fyrir flestum jördum í NFL deildinni á síðasta tímabili.

„Hann sagði mér að hann hefði aldrei séð handbolta og hann vissi ekki hvað þetta var,“ sagði Nikola Karabatic. „Við útskýrðum þetta fyrir honum,“ sagði Nikola.

„Hann er ekki alslæmur,“ sagði danski markvörðurinn Jannick Green sem stóð í markinu í skotum Hill.

Í lok æfingarnarinn árituðu Karabatic bræðurnir PSG treyju fyrir Hill og hann gaf þeim Miami Dolphins hjálm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×