Innlent

Al­var­legt mál þegar TikTok-stjarna kyssti skjól­stæðing

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Atvikið kom upp á Sóltúni Heilsusetri við Sólvangsveg í Hafnarfirði.
Atvikið kom upp á Sóltúni Heilsusetri við Sólvangsveg í Hafnarfirði. Vísir/Vilhelm

Stjórnendur heilsusetursins Sóltúns í Hafnarfirði líta mál sem kom upp síðustu helgi á setrinu þegar TikTok stjarna tók upp myndband af skjólstæðingi heimilisins alvarlegum augum. Forstjóri segir verkferla hafa verið virkjaða og að málinu sé lokið. 

Samkvæmt heimildum Vísis fór nítján ára gamall áhrifavaldur inn á Sóltún Heilsusetur síðustu helgi og hugðist taka TikTok-myndband þar. 

Áhrifavaldurinn er þekktur fyrir að birta grínsketsa og viðtöl tekin upp á opinberum vettvangi á samfélagsmiðilinn, þar sem hann er með yfir tíu þúsund fylgjendur. 

Í myndbandinu hafi hann sagt að vegna þess hve mörg like hann hefði fengið „þyrfti“ hann að kyssa konu sem var meðal skjólstæðinga. Hann hafi síðan gert atlögu að því. 

Með öllu óheimilt

Í yfirlýsingu frá Höllu Thoroddsen forstjóra Sóltúns segir að síðustu helgi hafi áhrifavaldur mætt á Sóltún Heilsusetur og ætlað að taka upp stutt myndskeið með einum skjólstæðinganna. 

Mikilvægt sé að gera greinarmun á hjúkrunarheimilinu Sólvangi og Sóltúni Heilsusetri. Sóltún Heilsusetur er skammendurhæfingarmiðstöð fyrir eldri borgara í sjálfstæðri búsetu á Sólvangi í Hafnarfirði. Þeir sem sækja sér þá þjónustu dvelja þar í fjórar til sex vikur.

Hún segir atvikið litið alvarlegum augum hjá stjórnendum heilsusetursins og sé með öllu óheimilt. 

„Þegar stjórnendur fréttu af myndbandinu var haft samband við viðkomandi áhrifavald og krafist þess að myndbandið yrði fjarlægt af miðlinum og við því var orðið. Aðstandendur voru upplýstir um stöðuna, viðkomandi bað hluteigandi afsökunar, verkferlar áréttaðir og málinu lokið,“ kemur fram í yfirlýsingunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×