Skoðun

Ör­saga um ál og auð­lindir

Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar

Raforka Íslendinga er að sönnu þjóðarauðlind. Í umræðunni um orkuskort gefa einhverjir þeirri hugmynd undir fótinn að stórkaupendum raforku sé ofaukið og á þeirra kostnað væri hægt að nýta orkuna í orkuskiptin og styrkja ferðaþjónustu.

Réttilega eru álframleiðslufyrirtækin á Íslandi stórir notendur raforku. Álframleiðsla er orkusækinn iðnaður þar sem hreinn málmur er unninn úr áloxíði. Að sama skapi er álið umhverfisvænn málmur að því leyti að hann er léttur og því kjörinn efniviður t.d. í bíla og flugvélar en léttari farartæki þurfa minni orku til að komast áfram. Álið er auð endurvinnanlegt með tiltölulega litlum tilkostnaði. Kolefnisspor af álvinnslu á Íslandi er það minnsta í heiminum. Það er fyrst og fremst vegna þess að orkan sem við notum til álframleiðslu er vistvæn.

Landsvirkjun, eign þjóðarinnar skilaði methagnaði á síðasta ári. Það var meðal annars vegna kaupa álveranna á raforku.

Álframleiðsla á Íslandi leggur til 2000 bein og óbein störf og voru útflutningstekjur vegna álframleiðslu tæpir 400 milljaðar á árinu 2022.

Þá mætti ræða í löngu máli samfélagslegu áhrifin í tengslum við uppbygginu álveranna. Til að mynda væri austurland ekki sá sterki kjarni í ferðaþjónustu ef ekki væri fyrir þá uppbyggingu sem þar átti sér stað í tengslum við álverið á Reyðarfirði svo ekki sé talað um jákvæð áhrif á atvinnulíf, húsnæðisuppbyggingu og styrki til samfélagsverkefna.

Það er sama hvernig á það er litið. Útflutningstekjur þjóðarinnar byggja á auðlindum okkar. Hvort sem það er fiskurinn í sjónum, raforkan eða streymi ferðamanna um þjóðlendur Íslands, erum við að nýta auðlindir okkar til þess að skapa okkur tekjur en þær eru grunnur hagsældar okkar sem byggjum þetta land. Það er gott að búa á Íslandi af því hér eru þjóðartekjur með þeim hæstu í heiminum.

Um leið og heimsmarkaðsverð á áli getur sveiflast til getur ferðaþjónustan brostið t.d. vegna eldgosa eða farsótta. Fiskurinn í sjónum gæti líka tekið upp á því að færa sig á önnur mið, það er aldrei á vísan að róa. Þá er gott að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×