Skoðun

Elín­borg leiði friða­boð­skap kirkjunnar

Ragnheiður Gunnarsdóttir skrifar

Að skapa kirkjunni breiðan farveg friðar á Íslandi verður verkefni nýs biskups. Og það er ekkert áhlaupaverk því þar er bæði um að ræða frið og sátt um kirkjunnar störf og mikilvægi meðal okkar Íslendinga sem og sá boðskapur að boða og styðja frið í stríðshrjáðum heimi. Maðurinn háir linnulaus stríð við veröldina alla, við aðra menn og náttúruna.

Á Íslandi er sótt að kirkjunni, hún sökuð um að vera gamaldags, úrelt og eiga ekki erindi við nútímann. Og vissulega er boðskapur hennar gamall enda rúmlega tvö þúsund ára. En það er enginn boðskapur betri.

En það er hins vegar hvernig sá boðskapur er settur fram á hverjum tíma og honum fylgt eftir sem er verkefni hverrar kynslóðar, með þeim aðferðum sem hún hefur yfir að búa og þeim áherslum sem hún telur mikilvægastar og ég tel engan vafa á að því verkefni væri best komið hjá Elínborgu Sturludóttur.

Fædd og uppalin á landsbyggðinni, hafandi þjónað sjávarbyggð, sveit og höfuðborginni sem prestur í Dómkirkjunni í Reykjavík og búið erlendis. Með víðtæka menntun í guðfræði og sálgæslu til að veita prestum og öðru starfsfólki kristinnar kirkju á Íslandi stuðning í störfum sínum.

Í þjónustu sinni sem prestur hefur áhersla hennar á boðskap um frið verið aðalsmerki, allan hennar starfsferili. Hún hefur haft að leiðarljósi hljóða göngu pílagrímanna, ekki bara á hinum fræga Jakobsvegi heldur milli kirkna, úr Borgafirði , í Skálholt og svo nú síðast frá Dómkirkjunni í Reykjavík um höfuðborgina okkar allra.

Á göngu gefst færi á að íhuga, koma friði og ró á hugann og þakka fyrir það sem er en einnig búa sig undir að takast á við það sem bíður. Og við erum alltaf öll að kalla eftir friði, innri friði og friði í veröldinni svo foreldrar megi horfa í augu barnanna sinna og sjá þar framtíðina.

Ég hvet alla sem hafa atkvæðisrétt í komandi biskupskjöri að nýta sitt atkvæði og greiða það Elínborgu Sturludóttur.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×