Handbolti

Spenntur fyrir að halda HM með Ís­lendingum

Sindri Sverrisson skrifar
Íslendingar og Norðmenn hafa oft mæst á stórmótum í gegnum tíðina en munu starfa saman í að halda HM 2031.
Íslendingar og Norðmenn hafa oft mæst á stórmótum í gegnum tíðina en munu starfa saman í að halda HM 2031. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Kåre Geir Lio, formaður norska handknattleikssambandsins, segir það tilhlökkunarefni að halda heimsmeistaramót karla með Íslendingum og Dönum árið 2031.

Í dag tilkynnti alþjóða handknattleikssambandið að HM 2031 yrði haldið í Noregi, Danmörku og á Íslandi.

HM fer fram á tveggja ára fresti og verður næst haldið í Króatíu, Danmörku og Noregi í janúar næstkomandi. Ísland þarf að leggja Eistland að velli í umspili í næsta mánuði til að komast á mótið.

HM fer svo fram í Þýskalandi 2027, og Þjóðverjar og Frakkar halda mótið saman árið 2029, áður en Danir og Norðmenn halda það aftur en þá með Íslendingum í stað Króata.

„Þetta verður heimsmeistaramót þar sem við getum sýnt breiddina í norrænum handbolta, menningu og þjóðlífi. Við höfum þegar unnið margoft með Danmörku en það verður spennandi að útvíkka vinskap okkar við Íslendinga með nýjum hætti. Við hlökkum til þess,“ sagði Lio við NRK.

Ekki liggur fyrir í hvaða borgum HM 2031 fer fram en þó er ljóst að til stendur að leikirnir sem fara eiga fram á Íslandi verða í nýrri þjóðarhöll Íslendinga í Laugardal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×